150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

samgönguáætlun.

[11:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður svaraði eiginlega spurningunni fyrir mig. Hann sagði að vegna þess að hér hefði verið tekin ákvörðun um fjármögnun og fjárfestingarátak væru tiltekin verkefni komin á dagskrá og hann hefði ekki áhyggjur af og það væri jafnvel fyrirhugað að það kæmi annað átak í haust og þess vegna þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því. Þetta var nákvæmlega það sem ég var að benda á. Öll verkefni sem eru í samgönguáætlun, þar sem við erum að flýta verkum, þar sem við erum að taka verkefni sem eru aftar, úr 15 ára áætlun og setja inn á fyrsta tímabil, fá meiri vigt í þingsályktun með samþykktri samgönguáætlun.

Svo verð ég bara að spyrja: Samgönguáætlun er búin að vera til umfjöllunar í þinginu mjög lengi í umhverfis- og samgöngunefnd undir stjórn formannsins. Af hverju í ósköpunum ættum við ekki að klára það verkefni núna? Á að fara að bíða eftir því að leggja fram fjárfestingaráætlun í haust til að fá stuðning þingsins við að fara í þau verkefni? Af hverju í ósköpunum er ekki fyrirsjáanleiki í (Forseti hringir.) störfum þingsins þannig að Vegagerðin hafi á traustum grunni að byggja þegar hún tekur ákvarðanir um forgangsröðun og í hvaða hönnun, framkvæmdir og útboð peningarnir eiga að fara?