150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

málefni lögreglunnar.

[11:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta. Hún kom inn á fjölda atriða er varða lögregluna og ég tek undir það að margt jákvætt er að gerast innan lögreglunnar. Það má með sanni segja að lögregluráð hafi virkað sem skyldi, það hefur virkað afar vel sem formlegur samráðsvettvangur fyrir lögreglustjóra, ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara til að ræða hin ýmsu mál. Þar hefur kjaramálin borið á góma, bæði hefur verið rætt um stofnanasamninginn, sem hv. þingmaður kom inn á, en einnig hef ég rætt þar um kjaramálin. Ég var sérstakur gestur á síðasta fundi lögregluráðs. Þar ræddi ég þær lagabreytingar sem ég hyggst fara í er varða eftirlit með lögreglu sem ég tel að sé afar mikilvægt, ekki síst til að viðhalda trausti þjóðarinnar sem er svo mikið á lögreglunni. Lögreglan á það skilið. Lögreglan er þjónandi hér, þetta traust hefur komið á löngum tíma og ég held að þær breytingar séu góðar.

Ég ræddi líka kjaramálin. Lögreglumönnum hefur verið boðin hækkun í takt við aðra ríkisstarfsmenn en enn standa nokkur atriði út af. Það er mikilvægt að stofnanasamningur klárist til þess að hægt sé að meta einstaka lögreglumenn svo að þeir geti fengið laun í samræmi við reynslu sína, námskeið og annað eins og hv. þingmaður nefnir. Sú vinna er í gangi og er hjá lögreglustjórafélaginu.

Ég hef líka boðað ákveðnar breytingar á lögreglulögum og það er einmitt þetta með samvinnu embættanna, atriði sem hægt er að sinna betur á landsvísu þar sem öll lögregluembættin koma að og hvaða verkefni við höfum verið að greina hjá ríkislögreglustjóra sem hægt væri að sinna betur á landsvísu, ýmsar verklagsreglur sem þarf að klára og annað slíkt. Ég ræddi líka um kynþáttamiðaða löggæslu við lögregluráð, mikilvægi þess að fara ekki í kynþáttamiðaða löggæslu heldur að löggæslan verði alltaf fagleg eins og við höfum séð hana undanfarið.

Ég held ég hafi komið inn á flest atriði fyrirspurnarinnar um lögregluna, hún var yfirgripsmikil, en ég svara því í seinna svari ef ég var að gleyma einhverju.