150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að koma stuttlega inn á atriði sem hafa komið fram í umræðunni hingað til og reyna að draga fram og undirstrika að nokkru marki hversu illa þetta mál allt saman er unnið.

Fyrst vil ég segja það að eftir tvo daga, á miðvikudaginn, verður tilkynnt niðurstaða um það hvernig biðskýli borgarlínu verða hönnuð, hvernig sætin verða hönnuð. Það verður tilkynnt eftir tvo daga en það er ekki til rekstraráætlun um verkefnið í heild sinni. Það er búið að hanna sætin, eflaust er búið að hanna límmiðana innan í biðskýlin en það er ekki til rekstraráætlun fyrir verkefnið. Það er verið að vinna þetta allt saman í öfugri röð með, eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason kom inn á í ræðu hér á undan, áróðurskenndum hætti. Það kristallast auðvitað í því að búið sé að hanna stólana í biðskýlin áður en búið er að gera rekstraráætlun fyrir verkefnið í heild sinni, fyrir verkefni sem kostar tugi og jafnvel 100 eða fleiri milljarða í framkvæmd hvað innviði varðar. Það mun síðan kosta óteljandi milljarða til langrar framtíðar þegar rekstur hefst, hefjist hann einhvern tímann á þeim grundvelli sem nú er horft til. Ég vildi segja þetta hérna í byrjun bara til að undirstrika að það er verið að vinna þetta borgarlínumál allt í öfugri röð.

Næst langar mig til að koma inn á — ég veit að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem hefur á köflum verið kallaður æsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, er í húsi þannig að hann kemur hér og bregst við þyki honum ég fara ósanngjörnum orðum um framgöngu hans — að í andsvörum síðast þegar málið var til umræðu þá hélt hann sumar af þeim alvitlausustu ræðum sem ég hef heyrt um þetta mál. Það er bara tvennt í þeim ræðum sem mig langar til að koma inn á þessum tímapunkti. Annars vegar hélt hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé því fram að hér væri öll umræðan á misskilningi byggð. Það væri núna verið að ræða mál sem ætti að ræða í næsta máli, borgarlínumálinu. Síðan værum við í Miðflokknum að ræða mál sem ætti að ræða í þarnæsta máli, svokölluð PPP-verkefni, samvinnuverkefnaleiðina.

Þetta er einmitt leið þeirra sem hafa ekki góðan málstað til að koma í gegn, þ.e. nota það sem stundum hefur kallað salamíaðferðin, að koma einu atriði inn í einu með vísan í það að þetta sé allt á misskilningi byggt og verið sé að fókusera á ranga hluti og ná þá að taka hænuskref eftir hænuskref og tryggja það á endanum að heildarmarkmiðið nái fram. Auðvitað tengjast öll þessi mál, PPP-samvinnuverkefnin, ohf.-leiðin um stofnun félags um borgarlínuverkefnið, með nátengdum hætti við samgönguáætlun. Það er algerlega fráleitt af fulltrúa Vinstri grænna í umhverfis- og samgöngunefnd, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, að halda öðru fram. Ég ítreka að þetta er meira af því sama sem við höfum séð svo víða hjá þessari ríkisstjórn, salamíaðferðinni er beitt með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru til þess að mjaka málum áfram.

Það líður hratt á tímann en næst langar mig að koma inn á sjónarmið hæstv. samgönguráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar. Ráðherrann var í löngu viðtali í Víglínunni á Stöð 2 í gær þar sem ég held að hæstv. ráðherra hafi fjórum sinnum talað um að hann tryði því ekki að nokkur þingmaður ætlaði að hindra framgang samgönguáætlunar eins og hún lægi núna og stoppa þar með óteljandi framkvæmdir sem myndu færa verkefni út í samfélagið á tímum þar sem mikil þörf væri fyrir þau.

Ég spurði hæstv. ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir sennilega 20 mínútum eða hálftíma síðan hver þessi verkefni væru sem myndu frestast ef samgönguáætlun væri ekki kláruð núna. Ég spurði ekki einu sinni, ég spurði hann tvisvar hver þau verkefni væru sem myndu frestast. Hæstv. ráðherra tilgreindi samanlagt ekki eitt einasta verkefni.

Það er auðvitað samgönguáætlun í gildi sem var samþykkt fyrir rétt rúmum 12 mánuðum síðan. Allt tal um að það sé lögbundin skylda Alþingis að samþykkja þessa áætlun er á misskilningi byggð. Það er eflaust hluti af þeirri spunavinnu sem gengur út á að reyna að ramma inn það sjónarmið að ekki megi tala um borgarlínuna því að staðreyndin er að efnislega hefur átt sér mjög lítil umræða um borgarlínuna. Þess vegna er fólk úti um allan bæ núna að vakna upp við vondan draum og segja: Ha? Er staðan sú að það eigi að taka akbrautir úr núverandi vegakerfi undir borgarlínu?

Ég held að það væri nær í lok ágúst, rétt áður en skólar byrja í haust, að starfsmenn borgarinnar færu út með dálítið magn af umferðarkeilum og lokuðu þessum veghlutum sem ætlunin er að leggja undir borgarlínuna. Þá fyrst munu menn finna hvernig ástandið verður fyrir fjölskyldubílinn þegar verður búið að taka hluta af núverandi umferðaræðum undir borgarlínuna. Við verðum að hætta þessum sýndarskap. Slík sýndarmennska mun ekki bara kosta okkur gríðarlega fjármuni heldur mun hún kosta okkur mikinn tíma, mikinn pirring, miklar tafir, alveg óskaplegar tafir í umferðinni. Við sem sitjum á þingi getum ekki leyft okkur að láta það renna fram hjá eins og ekkert sé, eins og þetta sé eitthvert aukaatriði. Það er ekki boðlegt.

Mig langar sömuleiðis að koma örstutt inn á sjónarmið Reykjavíkurborgar varðandi borgarlínuhluta samgöngusáttmálans svokallaða. Það velkist enginn í vafa um það að Reykjavíkurborg hefur árum saman, kjörtímabilum saman, gert allt sem í hennar valdi stendur til að þrengja að fjölskyldubílnum. Það hafa einfaldlega verið notuð öll trikk í bókinni til að þrengja að umferð, hægja á henni, gera ökumönnum lífið eins leitt og nokkur kostur er til að reyna að þvinga fólk til að nota almenningssamgöngur. Eins og við vitum öll hefur enginn árangur náðst, enginn, hvað það varðar að hækka hlutfall farinna ferða með almenningssamgöngum þrátt fyrir að settur hafi verið í það milljarður á ári í hartnær tíu ár. Eftir tvo daga verður sett upp „sjó“ þar sem sýnd verða sætin sem farþegar eiga að sitja í þegar þeir bíða eftir borgarlínunni, eftir tvo daga verða þau afhjúpuð. Á sama tíma og ekkert liggur fyrir um rekstur þessa apparats og allar áætlanir hvað innviðakostnaðinn varðar eru á eins veikum grunni byggðar og raunin er er þetta auðvitað ekkert annað en „sjó“.

Það er skylda okkar þingmanna að ræða þetta mál af alvöru og af dýpt. Það veldur mér óskaplegum vonbrigðum að sjá hversu lítinn þátt stjórnarliðar, sem þó þykjast tala fyrir borgarlínu, taka í umræðunni. En ég vil þó sérstaklega benda á aldeilis fyrirtaksræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen sem var flutt hér fyrir einhverjum dögum síðan og flestir áhugamenn um þessi mál ættu að fletta henni upp á vef Alþingis og kynna sér. Þarna held ég, og það endurspeglast í grein oddvita Sjálfstæðismanna í Morgunblaðinu í morgun, að liggi sjónarmið meginþorra Sjálfstæðismanna í borginni sem eru orðnir yfir sig þreyttir á því ofríki sem borgin hefur sýnt gagnvart fjölskyldubílum með, eins og ég sagði áðan, öllum þeim leiðum sem færar hafa verið til þess að þrengja að honum í umferðinni.

Það er ekki hægt að kalla borgarlínuna neitt annað en lausnargjald. Þetta er lausnargjald sem ríkið er að greiða til þess að fá að vinna að uppbyggingu á stofnbrautakerfi höfuðborgarinnar. Stofnbrautakerfinu hefur verið haldið í gíslingu í rúm tíu ár núna, m.a. með samningnum um framkvæmdastoppið. Leiðin út úr þessari gíslingu er ekki sú að borgin setji sig í stand og hleypi mikilvægum framkvæmdum eins og mislægum gatnamótum á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar inn á skipulag. Nei, það er ekki leiðin. Leiðin er sú að verja 50 milljörðum í lítt útfærða hugmynd um borgarlínu, 50 milljörðum. Þetta er ótrúleg tala sem stór hluti þingmanna virðist vera tilbúinn að kyngja án þess svo mikið sem fara í ræðu um málið.