Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[17:23]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að sjálfsögðu að gera eins og aðrir sem komu hingað á undan mér og þakka fyrir þetta mál. Ég þakka flutningsmanni, hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, sérstaklega fyrir að leggja þetta mál fram. Hún kallaði fram mjög breiða samstöðu hér á þinginu þegar hún gerði það. Það er líka gott að sjá hvernig málið var unnið í nefndinni og gott að orðið hafi til sá samtakamáttur sem hér varð til þess að þetta góða mál var tekið til afgreiðslu, tekið til vandaðrar vinnslu í nefnd og það að við séum að ræða það hér á þinglokadegi er auðvitað bara mikið gleðiefni. Það þurfti að gera einhverjar nauðsynlegar réttarfarslegar breytingar í ljósi athugasemda réttarfarsnefndar. Mér skilst að sú vinna hafi verið mjög vönduð og lýsi ánægju minni með að nú sé verið að gera refsivert að beita óvísindalegum aðferðum og í raun ógeðfelldum aðferðum til að breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu fólks, að bæla það niður, þ.e. með bælingarmeðferð.

Ég styð þetta mál heils hugar og segi eins og hv. þingmaður áðan, að ég hlakka til að greiða atkvæði með þessu máli. Það er mjög mikilvægt að vilji löggjafans sé skýr í þessu máli. Þess vegna finnst mér gott að nefndarálitið sé jafn ítarlegt og raun ber vitni og jafn vel unnið og það er. Þar er farið vel yfir þær umsagnir sem bárust, jákvæðar sem neikvæðar, og farið svolítið yfir þær breytingar sem þurfti að gera. Það einkennir oft þingmannamál og þinglok að lagasetning er á harðahlaupum og kannski nær ekki allt að verða fullkomið. En hins vegar finnst mér við hafa náð ansi góðri lendingu í þessu máli og einhverjar pælingar um að vinna þetta betur eru auðvitað bara góðar og við hljótum að skoða það á næsta þingi hvort einhver frekari skoðun verði gerð á þessu máli. En mikilvægast er að vilji löggjafans sé skýr og að við sendum hér mjög skýr skilaboð.

Frelsi og mannréttindi eru ekki sjálfsagður hlutur. Við eigum að taka skref fram á við og við þurfum að tryggja að skrefinu fram á við fylgi ekki tvö skref aftur á bak, að við stöndum fast í lappirnar gagnvart þeim atburðum sem eru að gerast í nágrenni við okkur, eins og hv. flutningsmaður frumvarpsins nefndi. Önnur lönd eru að taka vond skref í þágu mannréttinda og bakslagið sem nokkrir þingmenn hafa rætt hér er raunverulegt. Við eigum öll að taka þátt í þeirri umræðu, ekki bara einhver sérstakur hópur eða hópurinn sem finnur fyrir því bakslagi heldur eigum við öll að taka þátt í þeirri umræðu því að mannréttindi eru auðvitað ekki einkamál einhverra tiltekinna hópa heldur varða okkur öll og eru samspil margra réttinda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Mér finnst mjög gott að markmiðið sé hér að við séum að miða að því að vernda viðkvæma hópa og þar falla börn sérstaklega undir. Eins og ég nefndi þá eru þetta ógeðfelldar aðferðir sem verið er að beita og ég er þakklát að fá að taka þátt í þeirri vinnu að senda skýr skilaboð um að það muni ekki líðast. Það er átakanlegt og erfitt að lesa um og sjá, eins og kom fram í frumvarpinu sjálfu, þessar tölur um að lífsánægja hinsegin fólks sé minni. Rannsóknir sýna að tíðni þunglyndis meðal ungmenna sem hafa fengið þessa meðferð er tvöfalt hærri og þau eru meira en tvöfalt líklegri en aðrir til að reyna sjálfsvíg. Það er auðvitað sláandi og sorglegt og við eigum ekki að hafa hér uppi einhverjar hugmyndir í þessu samfélagi, okkar góða samfélagi, að þetta sé í lagi. Þess vegna segi ég, svo ég tíundi það hér, að það er mikilvægt að við sendum skýr skilaboð, að vilji löggjafans sé skýr.

Ég hlakka til að greiða atkvæði með þessu máli og senda þessi skýru skilaboð með ykkur kollegum mínum hér á þinginu og þakka bara kærlega fyrir málið, þakka fyrir umræðuna. Hún er mikilvæg og það er gott þegar við ræðum mannréttindi hér og ég vil að við tökum fleiri skref fram á við og að við tryggjum og sláum skjaldborg um þau réttindi sem hafa náðst og förum ekki aftur á bak. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)