Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[17:29]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér eins og önnur til að þakka fyrir að við séum nú komin með þetta mál inn í þingsal til umræðu og til atkvæðagreiðslu síðar í dag þar sem ég mun að sjálfsögðu vera á grænu.

Nauðung, blekking hótun. Mér finnst það áhugavert og ætla að nýta minn tíma í dag til að fara aðeins ofan í af hverju það er mikilvægt að við festum það í hegningarlög. Alveg eins og hefur komið fram hér hjá öðrum hv. þingmönnum kann mörgum að finnast það léttvægt. Er þetta raunverulegt vandamál í hinsegin paradísinni? Við hvað erum við hrædd? Erum við ekki hér á góðum stað? Það er þó svo að það er uggur í okkur sem erum eldri en tvævetur og erum hinsegin og höfum tekið þátt í þeirri þróun og þeim samfélagsbreytingum sem orðið hafa á undanförnum áratugum. Við þekkjum orðræðuna, við þekkjum andstöðuna, reiðina, heiftina og hatrið sem við sjáum nú beinast gegn öðrum hópum en kannski hommum og lesbíum. Nú er það trans fólk, það er intersex fólk og það er fólk með ódæmigerða kyntjáningu eða einkenni. — Þetta eru mörg ný orð fyrir gamla hinsegin forréttindakonu. Ég á fullt í fangi með að halda mig inni í þessum orðum öllum og skilja og læra og geri það eins vel og ég get. En það sem ég vil segja er að við upplifum einhvers konar áfallastreitueinkenni af því að við höfum tekist á við nákvæmlega þetta undanfarna áratugi. Við höfum horfst í augu við það að missa vinnu, missa húsnæði, vera ekki örugg á gangi niðri í bæ, launamismun, allt mögulegt. Þetta er eitthvað sem okkur sem samfélagi hefur af mikilli elju tekist að vinda ofan af á síðustu áratugum með miklum réttarbótum frá hinu háa Alþingi til handa samkynhneigðu fólki. En það sem við erum að takast á við í dag er nákvæmlega sama umræða, þetta er nákvæmlega sama réttindabarátta og við stunduðum fyrir 40 árum, núna eru það bara aðrir hópar. En það er sami hópur sem stendur í vegi fyrir réttarbótum.

Mér finnst líka mikilvægt að nefna það sem hefur komið fram í þessari umræðu, að með breyttum tímum, stríði í Evrópu — við erum að sjá alls konar hluti sem við héldum kannski að við myndum ekki upplifa. Ég í mínum barnaskap sá ekki fyrir mér að ég myndi lifa tíma þar sem svona stórt innrásarstríð í Úkraínu eða eitthvert annað ríki myndi eiga sér stað. Ég vildi ekki trúa því. En það er staðreyndin. Það sem gerist í þessum aðstæðum er að þegar róðurinn fer að þyngjast hjá öllum almenningi, hvort sem það er vegna náttúruhamfara, vegna stríðs, vegna vaxta og verðbólgu, þegar líf almennings verður þyngra þá verður minna svigrúm fyrir mannréttindi. Það er staðreynd og það höfum við horft á í gegnum söguna og í gegnum tíðina, að það hefur orðið afturför í mannréttindum á slíkum tímum. Við sjáum þess mörg dæmi víða um heim. Við sjáum afturför í réttindum kvenna. Við sjáum afturför í réttindum fatlaðs fólks. Við sjáum afturför í réttindum hinsegin fólks. Mér finnst líka mikilvægt að segja það að við erum hér í dag í viðspyrnu. Allt sem við gerum til þess að standa vörð um mannréttindin er ekki bara fyrir þann hóp sem við tölum um hverju sinni heldur fyrir lýðræðið, fyrir allar manneskjur.

Eins og margoft hefur komið fram er ég hinsegin en ég á líka ættingja, vini, börn og aðra aðstandendur sem eru hinsegin, sem sýna ódæmigerða kyntjáningu og annað, og það er svo oft sem ég sit og hlusta á umræðu, hvort sem er í boðum, á vinnustöðum og einhvers staðar í samfélaginu þar sem heyrast rosalega lítil orð, jafnvel borin fram í léttu gríni. Þegar ég svo sest niður og hugleiði þau þá skynja ég svo sterkt hvað þau eru andstyggileg. Það ljótasta sem hefur verið sagt við mig er: Það er allt í lagi þó að strákurinn sé með naglalakk og í pilsi, þetta verður lamið úr honum þegar hann fer í grunnskóla. Þetta var sagt við mig um barnið mitt. Þetta var sagt í kaldhæðnislegu gríni. Ég fékk líklega klapp á öxlina samhliða því af því að það vill enginn börnum neitt vont. Allir vilja börnum vel. Allir vilja öllum vel. En af einhverjum ástæðum eru til þeir einstaklingar sem draga einhvers konar línu í sandinn þar sem ótti þeirra við mannréttindi annarra vegur þyngra en réttindi lítilla barna. Það er óhugnanleg staðreynd. Og hvað getum við gert?

Hér erum við að stíga mikilvægt skref. Ég verð að nefna löggjöf á síðasta þingi sem hæstv. forsætisráðherra kom í gegn. Öll þessi skref, öll lítil skref sem við gerum á okkar lagaverki sem tryggja réttindi hinsegin fólks skipta gríðarlega miklu máli. En það sem skiptir ekki síður máli er það að við öll í þessu samfélagi stöndum vörð um mannréttindi allra í samfélaginu óháð öllu, ég ætla ekki einu sinni að byrja að telja það upp, bara óháð öllu. Þegar við stöndum frammi fyrir því að einhverjir eru ekki tilbúnir til að fara í þá vegferð með okkur, hvaða vopn höfum við þá í töskunni? Hvaða verkfæri eigum við til að vinna í því? Það er bara eitt og það er fræðsla. Fræðsla hefur verið sterkasta vopnið gegn fordómum, hatursorðræðu og jaðarsetningu einstaklinga alla tíð. Fræðsla dugar betur en sektir, skammir og hvað það nú er sem við myndum nota, fræðsla sem upplýsir fólk um það að það er ekki hættulegt að ein manneskja fái mannréttindi, fái notið mannréttinda. Fræðsla um að það muni ekki skerða mannréttindi annarra er það sem skiptir öllu máli.

Eins þakklát og glöð og ég er þar sem ég stend hér og ræði þetta mikilvæga mál, þar sem við erum að leggja bann á bælingarmeðferð einstaklinga, finnst mér svo dapurlegt að við náum ekki að ræða hér um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu, sem felur ekki í sér nein boð eða bönn, sem varpar ekki rýrð á nokkra manneskju, sem ekki er gerð til þess að stoppa tjáningarfrelsi eins eða neins heldur er það grundvallaratriði að fræða fólk um mannréttindi þess og að við séum hér öll einhvern veginn jafn rétthá í samfélaginu.

Ég er ein af stofnendum félagsins Hinsegin Austurlands og var formaður þess til skamms tíma. Þegar við settumst niður, nokkrir vinir og kunningjar, til að stofna félagið fórum við hugsa hvers konar félag þetta væri. Mikilvægast af öllu fannst okkur þá að félagið héti Hinsegin Austurland, félag hinsegin fólks á Austurlandi, aðstandenda þeirra og velunnara, af því að ef það er eitthvað sem ég hef lært á minni áratugalöngu göngu fyrir mannréttindum hinsegin fólks þá er það það að við hinsegin fólk gerum það ekki ein. Alveg eins og fatlað fólk og aðrir jaðarsettir hópar, minnihlutahópar, konur, hvert sem við horfum, þá er það ekki á ábyrgð hópsins að berjast fyrir réttlæti og mannréttindum sínum í samfélaginu. Það er á ábyrgð okkar allra. Þess vegna þurfum við öll að standa vörð um mannréttindi í því lýðræðislega samfélagi sem við viljum búa í.

Mig langar að lokum að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að koma fram með þetta gríðarlega mikilvæga mál. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að sitja í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, fyrir þá góðu og mikilvægu umfjöllun sem málið fékk þar og ég er meyr og þakklát fyrir að heyra og sjá þann þverpólitíska stuðning sem við finnum hér með mannréttindum.