Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[17:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og er svo sem í grunninn ekki ósammála því; við vonum að markmiðin nái fram að ganga. Nú sit ég ekki í hv. allsherjar- og menntamálanefnd líkt og þingmaðurinn en hef fylgst með vinnunni þar og fannst það vera býsna skýrt í máli framsögumanns hér, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur og fleiri þingmanna úr nefndinni, að komið hefði verið til móts við helstu ábendingar refsiréttarnefndar, enda kláraðist það samtal, þ.e. það þótti nóg að gert í raun og veru. Þannig að ég er bara að velta því fyrir mér: Á ég að skilja þetta svo að á þessum fundum nefndarinnar, þar sem farið var yfir hvernig vinnu var háttað varðandi þessar ábendingar frá refsiréttarnefnd, hafi hv. þingmaður ekki fengið svör við sínum spurningum eða þótt eitthvað vanta upp á?

Svo vil ég aðeins nefna eitt. Það kemur mér pínulítið á óvart að heyra þingmann taka undir með embættismönnum í því sem hér er sagt, að það eigi að fylgja öðrum þjóðum í lagasetningu, eins og við þurfum einhvern veginn að bíða eftir því á Alþingi að sjá hvað löndin í kringum okkur gera og svo getum við stigið inn í. Ég er satt best að segja ekki óvön því eftir árin hér að upplifa það að einstaka embættismenn hafi verið þessarar skoðunar en þetta er yfirleitt eitthvað sem við þingmenn reynum að standa á móti. Þannig að ég er svolítið hissa á þessu, ég verð að segja það. Og á meðan það er rétt t.d. að Norðurlöndin eru ekki búin að klára vinnu sína, ekki frekar en við akkúrat núna, þá er þetta nú engu að síður orðið að lögum í mjög mörgum löndum Evrópu og víðar. Ég hefði kannski áhuga á að heyra sjónarmið hv. þingmanns þar af því að ég furða mig á þessu.