154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Alveg eins og fjárlög eru meginverkefni haustþings þá er búið að stilla störfum þingsins upp þannig að fjármálaáætlun er eitt af meginverkefnum þings fyrir sumar. Þess vegna tek ég undir forundran hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar um það að ekki sé settur meiri þrýstingur af hálfu stjórnarliða á að klára umræðu um fjármálaáætlun. Svo verð ég nú að nefna samgönguáætlun sem hefði átt að klára fyrir ári en ósætti milli stjórnarflokkanna varð til þess að hún strandaði þá og nú er svo komið að inn í umhverfis- og samgöngunefnd þá er það eiginlega eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að tala um samgönguáætlun. Nú tala stjórnarliðar um samgöngumál, það er varla að það megi nefna áætlunina sjálfa á nafn. Ég óttast það að þegar líður á þennan dag þá komi í ljós að ríkisstjórnin sé annað árið í röð búin að slátra samgönguáætlun þannig að Vegagerðin muni standa frammi fyrir því eitt ár í viðbót (Forseti hringir.) að vita ekki alveg hvað á að gera, hvaða verk á að bjóða út og hvaða framfarir á að gera í þessum grunninnviðum samfélagsins. (Forseti hringir.)

Forseti. Þessi ríkisstjórn er náttúrlega löngu hætt að vera stjórntæk, en getur þingið kannski reynt að fúnkera eitthvað smávegis þó að svo sé?