154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er rétt að ég og hv. þm. Hildur Sverrisdóttir tókumst í hendur í beinni útsendingu klukkan tíu mínútur í tíu í gærkvöldi og handsöluðum þá að við myndum klára þetta í dag. Ég átti satt að segja von á því að fá fundarboð eða símtal en það er kannski nýtt verklag að boða til funda hérna uppi í þessari pontu. Við í Samfylkingunni höfum ekki gert neinar athugasemdir við það þó að útlendingamál eða annað sé rætt hérna og ég minni formann Sjálfstæðisflokksins á það að hann er forsætisráðherra allrar þjóðarinnar og ef honum finnst það sæmandi því starfi að sitja hérna flissandi eins og ofdekraður smástrákur þá er það auðvitað hans vandamál.

En herra forseti er líka forseti alls þingsins og ég tek undir með hv. þm. Sigmari Guðmundssyni, það er honum heldur ekki sæmandi að mæta í fjölmiðlaviðtöl og segja ósatt um það sem fer hérna fram.