154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[11:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna alveg sérstaklega þeirri dagskrá sem er hér fyrir þinginu í dag. Þó að auðvitað séu mörg mál sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að leysa sín á milli er hér mál á ferðinni, útlendingamálið, sem er gríðarlega mikilvægt og margir úti í samfélaginu bíða eftir lúkningu á. Maður veltir því fyrir sér hvort þessi uppákoma hérna hjá stjórnarandstöðunni tengist því eitthvað hversu erfitt þau eiga með að ræða þetta viðkvæma en mikilvæga mál. Við sáum það í 2. umræðu hvernig hv. þingmenn Viðreisnar og Samfylkingar tvístruðust í allar áttir og hversu mikil breyting, sem er þó jákvæð, hefur orðið á þeirra málflutningi frá því í fyrra.

Ég veit ekki af hverju menn eru hér að reyna að rýra traust þingsins. [Hlátur í þingsal.] Ég hef grun um (Forseti hringir.) að það sem hv. þm. Logi Einarsson kemur inn á, að það sé verið að flissa, þá var flissað hér í hliðarsölum líka og er flissað að þessu og ég held að það sé flissað að þessu úti um allan bæ, (Forseti hringir.) þ.e. hjá þeim sem enn nenna að fylgjast með þingstörfum þegar svona er komið fram í þingsal.