154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[11:09]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði á dögunum í umræðuþætti Morgunblaðsins að sér fyndist, með leyfi forseta, „umræðan í samfélaginu oft um verk þessarar ríkisstjórnar vera algerlega úti á túni“. Hann nefndi sérstaklega umræðu um efnahagsmál og stöðu heimilanna í því samhengi. Þetta segir hann, en hvað segja hagtölurnar? Eitt ár af vöxtum yfir 9%, fjögur ár af verðbólgu yfir markmiði og níu ár af hallarekstri hjá ríkissjóði. Nei, hæstv. forsætisráðherra, þjóðin er ekki úti á túni. Umræðan er ekki vandamálið, það er ríkisstjórnin sem er vandamálið. Eða hvað hefur ríkisstjórnin verið að gera til að taka á efnahagsmálunum? Hvað hefur hún yfir höfuð verið að gera núna í aðdraganda þingloka? Hver eru skilaboðin til fólksins í landinu yfir sumarið? Það er svakalegt að fylgjast með þessari ríkisstjórn og þau vita það best sjálf, enda er þetta alltaf sama sagan; stjórnarþingmenn að naggast hver í öðrum, með einhverjum skeytasendingum í fjölmiðlum, ráðherrar í hreint ótrúlegum leiðöngrum og bréfaskrifum sín á milli þar sem hvalveiðar, áfengissala og einhver furðuleg afskipti af störfum lögreglu er það eina sem kemst að. Halda þau að þetta séu mál sem brenni helst á þjóðinni þessa dagana?

Ég spyr: Hvað telur hæstv. forsætisráðherra að muni breytast á næstu mánuðum sem muni vinna gegn verðbólgu eða skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun? Á skyndilega að fjármagna 80 milljarða kjarasamningsaðgerðir sem ekki hefur fundist fjármagn fyrir? Ég vek athygli á því, forseti, að Alþýðusambandið og Bandalag háskólamanna segja að vanfjármögnun aðgerða stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga muni ýta undir verðbólgu. Samtök atvinnulífsins vildu helst ekki sjá aðgerðirnar í umsögnum sínum en öll virðast þau sammála um að skortur á áætlanagerð séu vond vinnubrögð. Svo segir hæstv. forsætisráðherra að umræðan sé úti á túni. Það eru áætlanir stjórnvalda sem eru úti á túni.