154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[11:11]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um stöðu heimilanna og kaupmátt Íslendinga er ágætt að halda sig einmitt við tölulegar staðreyndir. Staðreyndin er sú að á Íslandi hefur verið meiri hagvöxtur heldur en á öllum Norðurlöndunum og að jafnaði í Evrópusambandinu síðastliðin tíu ár. Þetta er staðreynd. Meiri hagvöxtur undanfarin ár á mann á Íslandi heldur en á öllum Norðurlöndunum, að Danmörk undanskilinni út af einu fyrirtæki, þegar reiknað er á mann. Hvernig hefur okkur tekist að verja kaupmátt heimilanna, það sem heimilin hafa milli handanna í lok mánaðar á undanförnum árum? Stutta svarið er þetta: Betur heldur en öllum öðrum. Það er kaupmáttarrýrnun í Evrópusambandinu og okkur hefur tekist betur upp að verja kaupmátt heimilanna heldur en hefur verið gert á Norðurlöndunum. Þetta eru allt saman staðreyndir. Laun hafa reyndar hækkað mun meira á hverju einasta ári á Íslandi heldur en á öllum Norðurlöndunum sem er meginástæðan fyrir verðbólgunni eins og hún birtist okkur, enda eru aukin ríkisútgjöld borin uppi af launahækkunum. Meiri hluti allra ríkisútgjalda eru launagreiðslur, meiri hlutinn. Því til viðbótar eru tilfærslurnar. Þegar þú tekur þetta tvennt saman og tekur síðan með í reikninginn að okkur hefur fjölgað um 15% frá árinu 2017, þá fá menn skýringuna á því í hvað peningarnir hafa farið. Hér stóð formaður stjórnmálaflokks í gær og sagði að enginn vissi hvert peningarnir hefðu varið. Svarið er augljóst: Fyrst og fremst í laun og tilfærslur og okkur hefur fjölgað um 15% á síðustu árum.

Það er umræða sem er úti á túni í efnahagsmálum þegar menn segja að hér sé allt upp í loft og okkur gangi illa, þegar menn sjá ekki ljósið. Okkur hefur gengið betur en öðrum, erum að vaxa hraðar en aðrir. (Forseti hringir.) Skuldastaða heimila, fyrirtækja og ríkisins er í jafnvægi og hefur sjaldan verið betri í sögunni, við höfum (Forseti hringir.) aldrei framleitt jafn mikil verðmæti áður og atvinnulífið er fjölbreyttara. Þetta eru staðreyndir.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir aftur á ræðutímann sem er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu í óundirbúnum fyrirspurnum.)