131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Bílastæðamál fatlaðra.

674. mál
[11:04]

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Málefni fatlaðra hafa mikið verið í umræðunni í þjóðfélaginu á síðustu árum. Hefur réttarstaða fatlaðra batnað verulega og mörg baráttumál fatlaðra hafa gengið eftir. Samkvæmt lögum hefur Alþingi Íslendinga tryggt þessum þjóðfélagshópi lögbundin réttindi sem eiga að stuðla að því að fatlaðir geti eins og aðrir þegnar samfélagsins lifað eðlilegu lífi.

Ég hef fengið ábendingar um að brögð séu að því að ófatlaðir einstaklingar leggi bifreiðum í stæði sem eru sérmerkt hreyfihömluðum. Oftar en ekki eru þessi stæði merkt mjög greinilega þó að trúlega megi bæta þar úr í einhverjum tilvikum. Þar sem merkingar eru greinilegar er ólíðandi að brotið sé á þessum rétti hreyfihamlaðra. Í raun er ekki hægt að leggjast lægra í umferðinni en í brotum af þessu tagi. Þau skerða oftar en ekki ferðafrelsi hreyfihamlaðra og þannig er gengið á lögbundin réttindi þessa þjóðfélagshóps.

Eins og staða mála er í dag heyrir ákvörðun um gjald vegna brota af þessu tagi undir viðkomandi sveitarstjórnir eða þá bílastæðasjóði sem viðkomandi sveitarfélög reka. Nú eru uppi hugmyndir um að hækka gjald vegna þessara lögbrota hér í Reykjavík upp í 2.500 kr. Ég er hins vegar ekki á því að heilar 2.500 kr. séu há upphæð í þessu samhengi þar sem sá sem brýtur þessi lög getur oftar en ekki fengið verulegan afslátt af gjaldinu greiði hann innan tiltekins tíma.

Hæstv. forseti. Ég get tekið sem dæmi hvernig farið er með sambærileg mál í öðrum löndum. Í Bandaríkjunum er þessum réttindum fatlaðra fylgt strangt eftir og þar er mikil lotning borin fyrir þessum sjálfsögðu réttindum hreyfihamlaðra. Algengar sektir í Bandaríkjunum geta oft numið 250–300 dollurum, sem eru um 15–20 þús. ísl. kr.

Hæstv. forseti. Hvað getum við gert á Alþingi til þess að brotum af þessu tagi fækki? Úrræði okkar í þessu samhengi eru þau að stuðla að því að gera merkingar við stæði hreyfihamlaðra greinilegar þannig að ómögulegt sé að leggja þar af misgáningi. Ég vil sjá verulega hækkaðar sektir líka við brotum af þessu tagi. Sektirnar verða að nema upphæðum sem fólk munar um, 10–20 þús. kr. væri í því samhengi ásættanlegt að mínu mati.

Því hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra á þessa leið:

Telur ráðherra koma til greina að ráðuneyti hans ákveði upphæð sektar fyrir brot á umferðarlögum þegar ófatlaður einstaklingur leggur bifreið í stæði sem merkt er fötluðum?