135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:40]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Fyrir nokkrum missirum var vakin athygli okkar nokkurra hv. þingmanna á því að fallið hefði dómur í héraðsdómi sem byggði á landskiptalögum frá 1941. Þar sem málið er nokkuð flókið tel ég eðlilegt, herra forseti, að ég lesi örlitla dæmisögu sem er kjarninn í málinu.

Tveir menn, Ari og Orri, eiga til helminga 100 hektara af óskiptu sameignarlandi. Þeir verða ásáttir um að skipta út einum hektara lands til hvors þeirra þannig að hvor fyrir sig á þá 49 hektara í óskiptu og einn hektara af úrskiptu landi, samtals 50 hektara. Ari fékk sinn hektara á skjólsælum stað og ræktaði þetta úrskipta land sitt í aldingarð, úrskipt spilda Orra er hins vegar á berangri og gerir hann engar endurbætur á spildunni. Þegar hér er komið sögu er land þeirra félaga metið til fasteignaskattsmats og hækkar heildarfasteignamat lands Ara mikið vegna landbótanna á úrskiptu landinu. Þá eru sett lög í landinu sem kveða á um að eignarhlutföll í sameignarlandi skuli fara eftir hinu nýja fasteignamati. Á grundvelli þessara nýju laga krefst Ari þess að hlutur hans í landinu sé skráður 70 hektarar og telur að svo sé samkvæmt hinum nýju lögum. Orri er ósáttur við að eignarhlutur hans á óskiptu landinu hafi minnkað úr 50% í 30% fyrir þá sök að nágranni hans, Ari, ræktaði úrskipt land sitt. Orri höfðar mál og krefst þess að sér verði dæmdur 50% eignarréttur á óskiptu landinu á þeirri forsendu að engir löggerningar hafi farið fram sem minnkað geti eignarhlut hans á óskiptu landinu. Dómstóllinn hafnar dómkröfu Orra og kveður Ara eiga skýlausan rétt lögum samkvæmt á að eignarhluti hans verði reiknaður samkvæmt hinum nýju lögum.

Herra forseti. Ég tel af þessari ástæðu eðlilegt að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, hvort hann telji af þessu gefna tilefni ástæðu til þess að lögin frá 1941, þ.e. landskiptalögin, verði endurskoðuð.