135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil áfram gera að umtalsefni málefni Íbúðalánasjóðs. Mér fannst með ólíkindum að heyra fréttir af því í gær að Samtök atvinnulífsins, sem telja sig vera að beita sér fyrir þjóðarsátt í efnahags- og atvinnumálum hér á landi þessa dagana, skuli setja á oddinn einkavæðingu og afhendingu Íbúðalánasjóðs til bankanna, það væri krafa númer 1. Reyndar þekkjum við þá kröfu frá Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei farið dult með það að hann telji að það eigi að einkavæða Íbúðalánasjóð. (Gripið fram í.)

Ég held að það væri rétt fyrir Samtök atvinnulífsins að senda fulltrúa þess til Bandaríkjanna þar sem yfirstjórn Bandaríkjanna varð nýverið að þjóðnýta íbúðalánasjóðina þar í landi. Þeir höfðu verið á markaði, þeir höfðu verið einkavæddir og þar hafði græðgin komið í spilið, menn höfðu keypt bréf í þeim á allt of háu verði og nú er erfið staða íbúðalánasjóðanna í Bandaríkjunum ein af ástæðunum fyrir fjármálaóróleikanum, og ekki bara þar heldur um allan heim.

Ég krefst þess að íslensk stjórnvöld láti af þessum tvískinnungi varðandi Íbúðalánasjóð og gefi bara alfarið út yfirlýsingu um að starfsemi hans sem íbúðalánasjóðs allra í landinu verði ekki breytt. Það tel ég, herra forseti, og umræðunni sem hér hefur verið að undanförnu um að það eigi að fara að einkavæða hann að hluta eða öllu leyti á bara að henda út af borðinu. Eða viljum við fara í sama fenið og íbúðalánasjóðirnir í Bandaríkjunum fóru?

Nei, það verður að taka af skarið, Íbúðalánasjóður (Forseti hringir.) er fyrir alla.