135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:23]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Senn er komið að lokum þessarar umræðu og þess vegna mun ég ekki verja tíma mínum til atyrða eða athugasemda gagnvart fyrri ræðumönnum en vil hins vegar leitast við að draga fram þá ályktun sem ég dreg af þeim ræðuhöldum sem hér hafa farið fram.

Í fyrsta lagi er skýrslu ráðherrans vel tekið, í öðru lagi eru bundnar væntingar við störf hæstv. ráðherrans og í þriðja lagi er vakning og viðurkenning gagnvart náttúruvernd og þjóðin og þingið er í auknum mæli meðvitað um að við höfum ekki leyfi til að spilla náttúrugersemum eða virða hættuna vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda að vettugi. Þvert á móti er sú skoðun og sá andi ríkjandi í þessari umræðu að núverandi kynslóð á sér aðeins stuttan stans á jörðinni, hótel okkar er jörðin og aðeins eitt augnablik í eilífðinni. Það er okkar að gæta þeirra gersema sem við höfum fengið í arf frá forfeðrum okkar og við eigum að skila þeirri arfleifð áfram til afkomenda okkar. Um þetta snýst hlutverk okkar þegar kemur að náttúruvernd og umgengni um umhverfið. Við eigum að fagna því að eiga umhverfisráðherra sem er áhugamaður um þetta viðfangsefni og hefur skilning á því hvoru tveggja að mínu mati að vernda umhverfið án þess þó að spilla fyrir eða stöðva með öllu framfarir í atvinnu- og framkvæmdamálum. Hæstv. ráðherra hefur reynt að feta farveg sátta og skilnings og leyfa báðum aðilum að njóta vafans. Þannig tók hæstv. ráðherra ákvörðun um sameiginlegt heildarumhverfismat fyrir norðan sem ekki kemur í veg fyrir framkvæmdir orkunýtingar á svæðinu, og eftir atvikum uppbyggingu álvers ef í það er farið, en tryggir sem eftirlitsmaður og yfirmaður umhverfismála að farið sé að lögum og miklar framkvæmdir og rask á svæðinu gangi ekki gegn náttúru og vernd hennar. Um þetta hljóta allir náttúruverndarsinnar að vera sammála og samþykkja. Þannig á að mínu mati að starfa. Það vill enginn og á enginn að ráðast gegn umhverfinu með jarðýtum, tækjum og tólum vegna skammtímaákafa og áhuga á framkvæmdum og spellvirkjum sem aldrei verða aftur tekin.

Ísland er lítið land en við eigum hins vegar skyldum að gegna gagnvart umheiminum og verðum að leggja fram okkar skerf til að þjóðir veraldar geti sameinast um árangur í þeirri varnarbaráttu sem nú er háð gegn loftslagsbreytingum og skaðlegum áhrifum gróðurhúsalofttegunda. Það er kannski barátta upp á líf eða dauða alls mannkyns og framtíðarinnar, barátta sem við eigum að heyja í þágu afkomenda okkar.

Hæstv. forseti. Umræður um umhverfismál eru mikilvægar, það er þýðingarmikið að við ræðum saman, skiptumst á skoðunum og reynum að komast að skynsamlegri og farsælli niðurstöðu. Öfgar eru ekki til neins, samræming og sátt í umhverfismálum er niðurstaða sem snýr að efnahagsmálum, atvinnumálum, siðferði og skynsamlegri stefnumótun sem hér er verið að leggja drög að og sem hér er verið að takast á um. Ég skora á þingheim og þjóðina raunar alla að slíðra sverðin, hætta ásökunum í hvers annars garð og fara offari, og nálgast viðfangsefnið af skynsemi, þekkingu og skilningi.