135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[16:29]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég las með athygli tilvitnunina í ræðu Margrétar Frímannsdóttur sem hv. þingmaður fór með hér, ég get tekið fullkomlega undir það og sú setning bráðabirgðalaganna sem við ræðum hér í dag brýtur ekki með neinum hætti í bága við það sem fram kemur í ræðu Margrétar. Að sjálfsögðu er það hlutverk Alþingis að veita framkvæmdarvaldinu fasta viðspyrnu og allt það eins og við þekkjum hér, við erum allir sem að þessari umræðu stöndum miklir stuðningsmenn þess. Það dylst engum.

Það var einfaldlega niðurstaða mín og forsætisráðherra fyrst þegar við ræddum málið og síðan ríkisstjórnar að lengri tíma tæki að afgreiða málið með því að kalla Alþingi allt saman aftur svo stutt var liðið frá því að fundum var frestað og mjög margir farnir til annarra starfa bæði innan lands og utan. Þetta væri skjótvirkasta, besta og réttlátasta leiðin á þeirri stundu. Lögin voru gefin út af forseta á föstudegi, níu dögum eftir skjálftana en það tók okkur þá viku að undirbúa lagasetninguna og klára málið. Við þurftum að tala við marga sem að málum komu áður en við lukum efnisatriðum. Ég hafði t.d. samband við forstöðumenn allra tryggingafélaganna á Íslandi símleiðis og innti þá álits á viðmiðum og fleiri hlutum þannig að við unnum þetta eins hratt og hugsast gat. Ef þingið hefði verið kallað saman hefði það sjálfsagt tekið eitthvað lengri tíma.

Það varð einfaldlega niðurstaðan á því augnabliki að hafa þetta með þessum hætti og fyrst við gerðum það þá stendur það. Ég held að það hafi verið fullkomlega rétt ákvörðun hjá okkur. Það hefði tekið lengri tíma að kalla þingmenn alla til starfa aftur, stutt var frá því að þingi hafði verið frestað fram á haust og við höfðum einnig í huga að skammur tími mundi líða þar til þingið gæti fjallað um bráðabirgðalögin eins og við gerum nú um miðjan september.