136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:44]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. 5. þm. Norðausturkjördæmis hóf máls á í upphafi má segja að efnahagsstefna næstu ára liggi nokkuð ljós fyrir í samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar eru þær útlínur sem við höfum skuldbundið okkur til að vinna eftir á næstu árum þannig að hvað ríkisfjármál og annað varðar liggur það fyrir. Hins vegar er eðlilegra að kalla eftir því að ríkisstjórnarflokkarnir leggi á borðið áætlanir sínar til að ná fram þeim markmiðum sem þar er lýst og menn hafa undirgengist að vinna að.

Annar stjórnarflokkurinn, sem var í raun andsnúinn þessu samkomulagi, verður auðvitað að beygja sig undir það og hefur gert það og þess vegna er eðlilegt að kalla eftir því að ríkisstjórnin geri kjósendum og þinginu grein fyrir því hvernig hún hyggst ná fram markmiðum sínum um að færa saman tekjur og gjöld ríkissjóðs á næstu árum þannig að jöfnuður náist. Við vitum að það verða ekki auðveldar aðgerðir. Þó að við séum örugglega viss um að landsmenn komist í gegnum þessa erfiðleika á nokkrum árum verða erfiðleikarnir töluverðir og tilfinnanlegir fyrst í stað. En það verður að fara í það verkefni og er eðlilegt að stjórnarflokkarnir geri grein fyrir því hvernig þeir hyggjast fara í það mál og leggi spilin á borðið: Að hve miklu leyti á að hækka skatta, að hve miklu leyti á að draga saman útgjöld, hvaða þjónustu á að skerða o.s.frv.

Það þarf auðvitað að liggja fyrir í aðdraganda kosninga svo þær veiti þeim flokkum sem mynda ríkisstjórn eitthvert umboð til þeirra aðgerða sem þeir ætla að grípa til á næstu árum. En því miður er útlitið þannig að ekki er líklegt að flokkarnir muni leggja spilin á borðið núna. Þegar mynduð verður ný ríkisstjórn að loknum kosningum hefur hún því í raun ekkert umboð til þeirra verka sem hún síðan ætlar að vinna vegna þess að hún hefur ekki kynnt áform sín og ekki lagt þau fyrir kjósendur þannig að þeir geti tekið afstöðu til þeirra á réttum tíma.