139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[16:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil hvetja hæstv. innanríkisráðherra til að kynna sér vel vandaða úttekt sem fór fram í Útvegsblaðinu , í þremur blöðum, þar sem gerð var grein fyrir grafalvarlegri stöðu Landhelgisgæslunnar sem aldrei hefur verið verri.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að svara því í seinni ræðu sinni hvort hann hafi rætt þessa úttekt Deloitte um hagkvæmni flutningsins, sem hér er verið að ræða, við forsvarsmenn Landhelgisgæslunnar, vegna þess að í einni af þessari úttekt kom fram það sjónarmið hjá forstjóra Gæslunnar að hugsanlega væru þarna samlegðaráhrif sem mundu spara í rekstri sem gæti þá rennt tryggari stoðum undir rekstur Gæslunnar.

Þegar öllu er á botninn hvolft, virðulegi forseti, tel ég líka mjög mikilvægt að við séum ekki bara að ræða hvar Gæslan eigi að vera. Það er mikilvægara að tryggja henni það rekstrarfé sem hún þarf til að sinna hlutverki sínu hvað varðar öryggismál. Eins og staðan er núna getur það gerst að Landhelgisgæsla Íslands geti ekki bjargað lífi sjómanna. Það eru algjörlega óviðunandi aðstæður. Það hlýtur að falla skuggi á menntaelítuna sem var við opnun tónlistarhússins (Forseti hringir.) að á sama tíma skuli mál vera með þeim hætti að ekki sé hægt að bjarga lífi sjómanna. (Gripið fram í.)