140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta nægja við lok þessarar stuttu umræðu að geta þess að það er ekki svo, eins og sumir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa látið í veðri vaka í dag, að öll mál hafi verið stöðvuð í þinginu, það er ekki rétt lýsing. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nefndi hér áðan að á vorþingi væri ekki óvenjulegt að 70–90 mál, ég held að hann hafi nefnt þá tölu, væru kláruð að meðaltali. Það vill svo til að núna á síðustu sex vikum hafa verið kláruð 56 mál þannig að það er býsna mikið þegar það er skoðað. Mörg af þeim málum eru umdeild, flest reyndar tiltölulega lítið umdeild en þó eru inni á milli umdeild mál og mál sem hefði jafnvel, eins og nýleg dæmi frá seinni partinum í gær sýna, verið tilefni til að ræða enn frekar. Þegar við skoðum þessi mál í samhengi verðum við að hafa allt samhengið með. Fjöldi mála hefur verið afgreiddur hérna. Um það hefur náðst samkomulag. Það eru engar forsendur fyrir öðru en að það geti náðst samkomulag um afgreiðslu fleiri mála, jafnvel töluvert fleiri mála ef það linast sá hnútur sem er í störfunum eins og sakir standa. Það er hins vegar þannig að þegar hæstv. ríkisstjórn hefur keyrt jafnillilega út af eins og hún hefur gert á þessu vorþingi þýðir ekkert að standa úti í skurðinum og öskra: Þetta er ekki mér að kenna, þetta er ekki mér að kenna. Það sem máli skiptir er að reyna að ná sér upp úr skurðinum.