140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér var kallað fram í áðan: Hver er skrattinn?

Afstaða Framsóknarflokksins til þessa máls kemur skýrt fram í minnihlutaáliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Þar er meðal annars rakið að afstaða minni hlutans sé sú að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Það er einnig rakið í nefndaráliti að hv. þm. Eygló Harðardóttir leggi til ákveðna breytingartillögu um þetta mál. Það hefur komið fram í umræðunni að meiri hlutinn sé jákvæður gagnvart þessari breytingartillögu þannig að það verður seint sagt að Framsóknarflokkurinn sé ekki jákvæður gagnvart starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Það sem hins vegar skortir upp á er það sem við höfum meðal annars rætt hér, það skortir frekari framtíðarsýn fyrir sjóðinn sem og frekari stefnumótun á þeim grunni að Íbúðalánasjóður gegni áfram lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Þetta hefur komið fram í mínum ræðum hér og þetta hefur komið fram hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í hv. velferðarnefnd þannig að ég held að það sé ekkert óljóst við þetta.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns um áhuga á því að tefja umræðu málsins og að hér sé verið að skemmta skrattanum — ég veit ekki hvernig á að svara hv. þingmanni um þetta. Ég held að það hljóti að liggja fyrir að það geti vel verið að í málum eins og húsnæðismálum og starfsemi Íbúðalánasjóðs hafi fleiri en einn þingmaður áhuga á að tjá sig. Ég rakti það í ræðu minni hvaða lykilhlutverki Íbúðalánasjóður hefði gegnt á sínum tíma. Ég held að það hljóti að eiga að vera fagnaðarefni fyrir hv. þingmann (Forseti hringir.) að það sé vilji til þess að ræða framtíð Íbúðalánasjóðs og (Forseti hringir.) að þingmenn hér séu jákvæðir gagnvart sjóðnum. Ég get ekki séð að það flokkist undir það að skemmta skrattanum, frú forseti.