140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:25]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það væri náttúrlega alvarlegt mál ef Íbúðalánasjóður yrði félagslegt úrræði fyrir landsbyggðina. Eins og allir landsmenn vita er ekki um neitt slíkt að ræða. Íbúar og fyrirtæki alls staðar að af landinu leggja sitt fram.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi í fyrra andsvari að taka þyrfti saman lista um hvernig skilum væri háttað eftir byggðum landsins. Ég held að slíkur listi mundi draga það mjög skýrt fram. Ég er sannfærð um að byggðirnar utan höfuðborgarsvæðisins standa sig mjög vel hvað það varðar.

Það sem ég átti fyrst og síðast við í ræðu minni varðandi markaðssvæði fyrir sunnan og á höfuðborgarsvæðinu eru þær miklu eignir sem Íbúðalánasjóður á á því svæði. Þá veltir maður því upp hvort það lúti ekki þeim lögmálum sem þar eru og eins varðandi þennan leigumarkað, en Íbúðalánasjóður verði áfram lánastofnun og geti starfað á landsvísu. Það má ekki misskilja orð mín varðandi lánamálin þannig að við ætlum að breyta honum í eitthvert félagslegt batterí. Spurningin snýst um hvort ekki þurfi að minnka sjóðinn þannig að hann sé ekki þessi stóra efnahagslega stærð í hagkerfi þjóðarinnar.