140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki alveg til að taka með skýrum hætti afstöðu til tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, ég þarf að hugsa það mál betur áður en ég tjái mig frekar um það. Hvað varðar þá tillögu sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hefur sett fram hef ég gefið henni betri gaum og hugsað það meira. Það er grundvallarsjónarmið að erfitt er að verja það að ein ríkisstofnun, Landsbankinn, hafi eina reglu um það hvernig hann fer með sín lán vegna íbúðarkaupa og önnur ríkisstofnun, Íbúðalánasjóður, hafi svo einhverja allt aðra meginreglu. Það vonda í málinu er kannski að það hefði þurft að vera búið að samræma þetta strax í upphafi þannig að áður en Landsbankinn fór af stað með sína nálgun — ég held að hún hafi um margt verið skynsamleg hvað það varðar að horfast í augu við það þegar sannarlega er um að ræða töpuð lán, horfast bara í augu við það þannig að það sé tekið strax til afskrifta og reyna að hafa regluna einfalda þannig að hægt sé að gera þetta tiltölulega hratt. Það hefði þurft að gera þetta samhliða þannig að Íbúðalánasjóður og Landsbankinn hefðu haldist í hendur og ýta þá um leið undir að hinir viðskiptabankarnir hefðu verið með sambærilega lausn. Það er auðvitað vont að fólki skuli mismunað eftir því hvar það var með sín lán, í hvaða bankastofnun, að menn fái mismunandi meðferð á milli þessara bankastofnana.

Hv. þingmaður benti á að ég hefði í ræðu minni rætt þetta með lánsformin en ég vara við því að menn fari of hratt í endurskipulagningunni sem á sér stað. Ég vara við því að menn séu of glaðir með að gefa frá sér (Forseti hringir.) verðtryggðu lánin því að fyrir ákveðna aðila geta þau verið betri en óverðtryggð lán.