145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en ég gleymi því og ef það hefur ekki komið fram í fyrri ræðu minni þá styð ég þessa tillögu. Það er mjög mikilvægt að þetta mál sé leitt til lykta þótt ég efist um sannleiksgildi eða tilgang þess, svo það sé sagt. Ég geri það á grunni þess að ég studdi það að báðar einkavæðingarnar færu í rannsókn. En pólitískar refskákir eru oft og tíðum þannig að til þess að ná einu fram er hitt skilið eftir. Það hefur svo sannarlega birst í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar undir forustu fyrrverandi ráðherra síðustu ríkisstjórnar, hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Hann var meðvitaður um það allan tímann að báðar þessar breytingartillögur frá síðasta kjörtímabili og þingsályktunartillagan frá mér um að rannsaka síðari einkavæðingu bankanna lægju fyrir þinginu. Gott og vel.

Það má vel vera, hæstv. forseti, að ég þiggi það góða boð að þingsályktunartillaga mín um rannsókn á síðari einkavæðingu bankanna fari á dagskrá þingsins á morgun, eins og gaukað var að mér í dag og ég spurð hvort ég væri tilbúin að samþykkja, fyrst það láðist að setja þær báðar á dagskrá í dag. Við skulum þá fara í það mál, ræða það á morgun og taka þá enn meiri tíma frá þinginu í þessi mál, vegna þess að stefnt er að þinghléi á fimmtudaginn. Það má alveg segja að þetta sé handvömm. En það er jafnframt merkilegt, og ég vil segja það við hv. þm. Birgi Ármannsson, að þingmenn hafa ekki neitt fast í hendi um hvað á að fara að rannsaka annað en upplýsingar frá einum aðila utan úr bæ sem segir að hér sé kannski eitthvað nýtt á ferðinni.