149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það frumvarp sem liggur hér frammi er eðlilegt framhald af allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað úti í þjóðfélaginu, inni í háskólunum og í þessum þingsal allt frá árinu 2009, og um það hefur hver skýrslan á fætur annarri verið birt. Það er ekki verið að flýta sér, hv. þingmaður, það er rangt að halda því fram. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig verkefnisstjórnin sem stóð að samningu frumvarpsins stóð að kynningu og hafði meira að segja samráð við efnahags- og viðskiptanefnd áður en frumvarpið var lagt fram með formlegum hætti. Það er til fyrirmyndar og menn ættu að draga það sem vel er gert fram og hrósa fyrir það. Ég veit, eins og þið öll hér, að sá tími kemur aldrei, það veit ég úr mínu námi, að allir hagfræðingar heimsins verði sammála. Ég tala nú ekki um þegar kemur að stjórn peningamála og hinni nýju fjármálahagfræði sem er nú að spretta fram en nýjar kenningar og hugmyndir eru að þróast með ógnarhraða. Þeir verða aldrei sammála.

Ef hv. þingmaður ætlar að bíða eftir því að allir hagfræðingar heims verði sammála um það hvernig við eigum að skipa til verka hér á Íslandi varðandi Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og fjármálastöðugleikann þá bíðum við til eilífðar og gerum aldrei neitt. Það er nefnilega þannig að við þurfum að hafa burði til þess að taka ákvarðanir eftir bestu getu, eftir bestu þekkingu og eftir að hafa farið í gegnum öll þau mismunandi álit og allar þær mismunandi skoðanir sem eru á viðfangsefninu. Við verðum að hafa burði til þess að draga ályktanir og komast að niðurstöðu. Ef við bíðum eftir því að allir sérfræðingar heims komist að niðurstöðu fyrir okkur og verði sammála þá munum við aldrei gera nokkurn skapaðan hlut.