149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[19:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins sem birtist hér í tveimur frumvörpum, þ.e. frumvarpinu um Seðlabanka Íslands og svo sérstöku frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum varðandi þá fyrirhuguðu sameiningu.

Ég vil fyrst segja að ég fagna auðvitað sameiningunni og hef verið talsmaður þess hér á þingi og reyndar löngu fyrir þann tíma að við Íslendingar ættum að fara varlega þegar kemur að því að setja af stað nýjar stofnanir og fjölga stofnunum í þessu litla landi. Það eru aðeins þrjú hundruð og eitthvað þúsund íbúar í þessu landi og við eigum að hafa það sem meginstefnu að leyfa okkur ekki þann munað að setja á stofn nýjar stofnanir. Eins og ítrekað hefur orðið vart við er ekkert málefni það aumt að ekki sé sett af stað einhvers konar stofnun hér á landi og í langflestum tilvikum eru stofnanirnar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, yfirleitt í Reykjavík, og þeim fjölgar með ógnarhraða og stundum eins og gorkúlum á fjóshaug. Ég fagna því að meginstefnu til sameiningu þessara tveggja stofnana.

Hins vegar mun ég fyrst í máli mínu tala um starfsmannamálin. Það er sannarlega ekki er gert ráð fyrir því að starfsmönnum muni fækka við sameininguna en óhjákvæmilega hlýtur að koma að því hjá sameinaðri stofnun að þar muni starfsmönnum, og eðlilega, vegna samlegðaráhrifa, fækka smám saman. Ég ítreka að það er mikilvægt að sú fækkun verði gerð í fullu samráði og í sátt við starfsmenn stofnananna.

Að því sögðu vil ég nefna yfirmennina. Það er gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að auk seðlabankastjóra verði þrír varabankastjórar, varaseðlabankastjórar heitir það. Þarna eru allt í allt, ef allar heimildir verða nýttar, fjórir seðlabankastjórar.

Herra forseti. Ég vil segja skoðun mína á því alveg umbúðalaust. Ég er algerlega andsnúinn svona yfirbyggingu með tilheyrandi launakostnaði. Ég er algerlega andsnúinn því. Ég tel að leggja ætti minna í slíka yfirbyggingu hjá ríkinu yfirleitt og líka í þessu tilviki.

Það er einnig gert ráð fyrir því að það sé heimild hjá ráðherra til að gera forstjóra Fjármálaeftirlitsins án auglýsingar að varaseðlabankastjóra. Það má engan styggja en ég vil ítreka skoðun mína. Ég tel að svona sameining eigi einnig að kalla á hagræðingarkröfu. Það er algjör forsenda fyrir slíkri sameiningu að það komi einhver hagræðing út úr því, einhver vinnusparnaður. Peningalegur sparnaður fyrir íslenska ríkið að sjálfsögðu. Það er ekki gert ráð fyrir því að svo stöddu í frumvarpinu og ekki sjáanlegt að það verði einhver sparnaður. En það hlýtur að koma að því. Þá verður að gera það í sátt við starfsmennina sem um ræðir og fá út úr því einhver samlegðaráhrif.

Um leið og ég fagna sameiningunni, eins og ég mun gera varðandi allar sameiningar opinberra stofnanna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, vil ég einnig taka undir það sem segir í áliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Ég tel að fresta eigi samþykkt frumvarpsins um sinn til að leita svara við ýmsum álitaefnum sem koma upp, t.d. er varða viðskiptaháttaeftirlit sem gert er ráð fyrir að verði á hendi hinnar nýju stofnunar. Það hefur komið fram í mörgum umsögnum sem bárust til nefndarinnar að skynsamlegra sé að viðskiptaháttaeftirlit sé ekki innan veggja Seðlabankans heldur hjá sjálfstæðri stofnun.

Þetta álit margra umsagnaraðila er ekkert nýtt af nálinni en meiri hluti nefndarinnar telur að rök séu fyrir því einnig að skynsamlegt sé og, sem ég legg áherslu á, ekki síður hagkvæmt að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu. En þá tökum við auðvitað líka samsvarandi áhættu á að þarna verði samstuð hagsmuna í stórri stofnun. Við tökum þá áhættu.

Herra forseti. Það hafa orðið miklar breytingar á umgjörð fjármálamarkaðarins á Íslandi á umliðnum árum eftir hrun og síðustu tíu ár hefur kerfið allt sætt mikilli endurskoðun og gagnrýni. Þetta er áfangi á þeirri leið að bæta umgjörð eftirlitsins. Við búum í litlu landi með lítið hagkerfi og mikilvægt að við vöndum til verka. Með tilliti til þess hvað gerðist hér á árunum fyrir hrun þegar fjármálakerfið óx langt upp fyrir höfuð okkar, langt upp fyrir það sem við réðum við, og langt upp fyrir það sem eftirlitskerfið réði við, er mikilvægt að við lærum af biturri reynslu og stígum varlega til jarðar og vöndum okkur. Ég vona svo sannarlega að þessi tvö frumvörp verði framfaraskref í þá átt.

Áður en ég lýk máli mínu er annað sem ég vil minnast á sem er það sem mikið var talað um eftir hrun en hefur minna heyrst um á undanförnum árum, þ.e. aðskilnaður í bankastarfsemi. Þar á ég við aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi.

Hann hefur ekki orðið að veruleika og áhætta tengd fjárfestingarbankastarfsemi er enn til staðar. Ég sakna þess að þetta málefni skyldi ekki hafa hlotið meiri umræðu á undanförnum árum, eins og var sannarlega hér á árunum eftir hrun og þegar efnahagslægðin var í algleymingi. Þá þótti þetta vera góð latína, að reyna að aðskilja þá starfsemi.

Ég veit sannarlega ekki og hef ekki svör við því, enda ekki unnið í þeim geira, ástæðurnar fyrir því af hverju svo er komið nú að enginn virðist hafa áhuga á þessu málefni. Slík áhætta hlýtur alltaf að vera til staðar þótt hættumerkin séu ekki uppi á borðum núna.

Ég held að það hljóti að vera óeðlilegt að bankar sem taka við fé launamanna og fólks sem er að spara, og láni til minni háttar framkvæmda, kannski hjá einkaaðilum eða fjölskyldum, séu svo á næstu hæð fyrir ofan, leyfi mér að segja, herra forseti, að „gambla“ með þá fjármuni í einhvers konar áhættufjárfestingum eða veðmálum eins og var hér fyrir hrun, að það sé enn þá hugsanlega opin leið fyrir þær stofnanir að starfa með þeim hætti sem var hluti af ástæðunum fyrir því að svo fór sem fór.

Eitt annað vil ég minnast á áður en ég lýk máli mínu, herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt um leið og Seðlabankinn er sameinaður Fjármálaeftirlitinu að lögfræðileg vinnubrögð innan Seðlabankans verði styrkt með einhverju móti innan nýrrar stofnunar, sérstaklega með tilliti til þeirra hrakfara sem stofnunin, Seðlabankinn okkar, lenti í í tengslum við útgerðarfyrirtækið Samherja. Ég tel að þar sé margt óunnið innan stofnunarinnar og að virkilega þurfi að styrkja lögfræðilegan grundvöll þessarar nýju stofnunar. Ég bendi á að það mætti kannski spara eitthvað í varaseðlabankastjórum og flytja þau stöðugildi til þannig að lögfræðileg deild bankans yrði styrkt þess í stað, fremur en að hlaða þarna í yfirstjórn bankans.

Það er ýmislegt fleira sem ég ætlaði að ræða í tengslum við þetta frumvarp. Ég vil ítreka í lokin að ég tel að það þurfi að renna stoðum undir að Seðlabankinn, sameinuð stofnun, verði sú öfluga eftirlitsstofnun sem við bindum vonir við að hún verði eftir sameininguna.