150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

samgönguáætlun.

[11:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það kom mér dálítið á óvart að á tveimur mínútum skyldi ráðherrann ekki nefna eitt einasta verkefni sem frestaðist vegna þessa per se. Í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var hér sem þingsályktunartillaga, sem Covid-mál, eru lagðir 6,5 milljarðar í samgöngumál og af þeim fara t.d. 1.860 milljónir í vegaframkvæmdir og hönnun þannig að ekki er fyrirsjáanlegur fjárskortur í hönnunarþætti þeirra mála sem liggja fyrir. Nú liggur fyrir samþykkt samgönguáætlun sem er rúmlega 12 mánaða gömul. Það liggur fyrir samþykkt þingsályktun um fjárfestingarátak þar sem 6,5 milljarðar fara til samgönguframkvæmda. Síðan er búið að flagga því að 1. október nk. verði lögð fram fjárfestingaráætlun í tengslum við framlagningu fjármálaáætlunar og þar er inni töluvert af verkefnum sem vissulega munu ýta mikilvægum verkefnum áfram. (Forseti hringir.) En ég ítreka hvort hæstv. ráðherra væri tilbúinn að nefna tilteknar framkvæmdir sem frestast, verði þetta þróun mála.