150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég held að rétt sé að ítreka það sem við höfum sagt, og ég hef m.a. sagt í nefndaráliti, um heimildina til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, sem er sérstakt frumvarp sem við eigum eftir að ræða hér. Miðflokkurinn hefur fagnað sérstaklega áherslu á að nútímavæða ljósastýringarkerfi á höfuðborgarsvæðinu, samkomulagi um framkvæmdir á stofnbrautum og áætlaðri uppbyggingu hjólastíga og annarra vistvænna samgöngumáta, eins og fyrir gangandi vegfarendur. En við getum hins vegar ekki fallist á áform um uppbyggingu borgarlínu og við höfum gert vel grein fyrir því. Það er alveg ljóst og nauðsynlegt að halda því til haga að það er fyrst og fremst þetta mál sem stendur út af þegar við höfum verið að ræða samgönguáætlun.

Það er bara svo mikil óvissa í kringum þetta borgarlínuverkefni. Það er óvissa varðandi skipulagið, framkvæmdina, rekstur og fjármögnun. Þess vegna er óforsvaranlegt að setja tugi milljarða króna í þann hluta verkefnisins sem snýr að borgarlínu. Og við höfum þegar bent á hér að það liggur ekki einu sinni fyrir rekstraráætlun. Það er líka óljóst með hvaða hætti mannvirki borgarlínu koma almennt fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu.

Í þeim efnum er fróðlegt að skoða það sem fræðimenn segja um þessi mál og vil ég vitna í vegamálastjóra New York-borgar, Samuel Schwartz heitir hann. Hann heldur því fram að ný almenningssamgöngukerfi, og nú tek ég fram að hann er sérfræðingur á þessu sviði, séu ekki byggð upp frá grunni heldur taki mið af umhverfinu sem þau eru í. Og í hvaða umhverfi er Reykjavíkurborg? Jú, það er fyrst og fremst einkabíllinn sem hefur verið ríkjandi samgöngumáti á höfuðborgarsvæðinu og götur og stofnbrautir hafa verið hannaðar með tilliti til þess. Það er hægara sagt en gert að setja slíkt kerfi niður í byggð sem í upphafi er ekki hönnuð með það í huga. Það er mikilvægt að hafa í huga. Það er alveg ljóst að umferðarmannvirki sem eru hönnuð fyrir bifreiðar þurfa að víkja til að koma borgarlínu fyrir. Það mun náttúrlega hafa í för með sér að þeir sem aka bifreiðum gjalda fyrir það, ég held að það sé alveg ljóst, og þá væntanlega með töfum og öðru slíku.

Það er líka algjörlega ljóst að ekki er hægt að þvinga neinn til að nota almenningssamgöngur. Það er heldur ekki hægt að þvinga neinn til að nota hjól til að komast á milli staða. Aukinn fjöldi bifreiða kallar á aukna umferðarrýmd og þess vegna er nauðsynlegt að vinna í stofnbrautunum, mislægum gatnamótum. Hv. þm. Bergþór Ólason rakti það ágætlega áðan að samkomulag um að draga hreinlega úr þessum framkvæmdum og snúa sér að strætisvagnakerfinu hefur gert það að verkum að umferðin í Reykjavík er orðin eins og hún er. Það eru tafir á álagspunktum vegna þess að ekkert hefur verið unnið að stofnbrautakerfinu, mislægum gatnamótum o.s.frv. Menn höfðu einhverja ofurtrú á því að þeir gætu aukið hlutdeild þeirra sem nota strætisvagna. En það mistókst (Forseti hringir.) og menn verða bara að horfast í augu við það og læra af því og horfa í það þegar þeir ræða (Forseti hringir.) borgarlínu.

Herra forseti. Ég sé að tíminn líður (Forseti hringir.) hratt og bið vinsamlega um að vera settur aftur á mælendaskrá.