150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það hefur verið haft á orði við þessa umræðu að við Miðflokksfólkið séum á móti þeim samgönguáætlunum sem til umræðu eru og að við viljum tefja fyrir því að þær nái fram að ganga. Það er alls ekki svo. Við höfum lýst því yfir að það er mjög margt í þessum áætlunum sem við tökum heils hugar undir og horfir til betri vegar. Það hefur líka komið fram og kom fram í máli hæstv. samgönguráðherra í morgun að hann gat ekki svarað því játandi að einhverjar tafir yrðu af því að við hefðum kosið að ræða þessi mál ítarlega. Það kom hins vegar fram í ítrekuðum andsvörum, frekar óstöðugum, hv. þingmanns Kolbeins Óttarssonar Proppés í gær að við Miðflokksfólkið værum við að tefja fyrir því að nauðsynlegar vegabætur gætu hafist. Það var á honum að heyra og skilja að akkúrat núna biðu flokkar vegagerðarmanna beggja vegna vegarins yfir Öxi þess albúnir að hefja framkvæmdir en biðu eftir því að Miðflokksfólkið hætti að tala.

Nú hefur það komið fram, herra forseti, eins og hér kom fram í ræðu minni áðan að hæstv. samgönguráðherra veit ekki dæmi þess að nokkurt verkefni muni tefjast af því að við höfum kosið að ræða þessi mál nokkuð ítarlega. Stundum er eins og sá hæstv. ráðherra hafi ekki fengið öll minnisblöðin. Hann sagði um eitthvert mál um daginn að hann hefði fyrst frétt af því í útvarpinu þegar ríkisstjórnin var búin að ákveða einhverjar sértækar aðgerðir vegna Covid. Þá verður maður að spyrja: Er það þannig, herra forseti, að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé búi yfir meiri upplýsingum en ráðherra samgöngumála um einhver ótilgreind, meint verkefni sem séu að tefjast akkúrat núna vegna þess að við Miðflokksfólkið höfum kosið að ræða þau nokkuð ítarlega?

Herra forseti. Þegar menn setja svona lagað fram, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé gerði hér í gær í nokkrum óstöðugum athugasemdum við ræður þingmanna, verða þeir að finna þeim orðum sínum stað. Hann verður að mæta hér og skýra frá því hvaða samgöngumannvirki eða samgönguverkefni eru að tefjast af því að við í Miðflokknum höfum kosið að ræða samgönguáætlanirnar nokkuð ítarlega. Ef það gerist ekki og þessi hv. þingmaður kemur ekki með nokkuð glögg dæmi um verkefni sem tefjast af því að við erum hér að ræða þetta mál þá eru orð hans um þetta einskis virði og ekki til að taka mark á. Það er auðvitað mjög leitt ef menn seilast þangað að fara að reyna að koma höggi á þá sem vilja vanda til verka eins og við erum að reyna að gera í þessu tilfelli. Við viljum fullvissa okkur um það, herra forseti, að í báðum áætlunum sé ekkert að finna sem rýri afkomu ríkissjóðs sem er ekki góð fyrir. Við viljum einfaldlega vanda það sem við erum að gera. Við viljum að þeir miklu fjármunir sem settir eru til samgönguframkvæmda á allan hátt á Íslandi verði nýttir sem best.

Herra forseti. Nú er ég bara rétt hálfnaður með það sem ég ætlaði að segja og bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.