154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[10:54]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Loga Einarssonar þá langaði mig bara að koma hingað upp og ítreka það að eins og í síðustu samtölum okkar þingflokksformanna var óskað eftir því að við myndum bara klára þá vinnu, sem er auðvitað viðamikil vegna fjölda þeirra fjölda mála sem eru undir, um hvernig við sæjum þennan heildstæða lista líta út í lokaútfærslu svo við myndum kannski ekki vera að eyða tíma annarra meðan það væri ekki endanlega frágengið. Við erum bara að standa við þann samning og ætlum okkur að gera það, að sjálfsögðu, og það styttist aldeilis í að við sjáum til loka þeirrar vinnu.

Svo verð ég að nefna að það vill svo til að við hv. þingmaður tókumst nú í hendur í beinni útsendingu í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og handsöluðum það að við þingflokksformenn stjórnarliða myndum setjast niður með stjórnarandstöðunni í dag til þess að fara yfir stöðuna. Ég legg í vana minn að standa við samninga og kannski væri nær lagi að koma hingað upp og gagnrýna það þegar eitthvað færi að benda til þess að samningar myndu ekki standa, en ekkert bendir til þess að svo verði, þannig að við hittumst í dag, hv. þingmaður.