154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[11:00]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvað kemur í veg fyrir að við ljúkum þingi með eðlilegum hætti nú í vor? Er það samstöðuleysi stjórnarandstöðunnar eða samstöðuleysi stjórnarflokkanna? Það síðarnefnda. Það er samstöðuleysi innan ríkisstjórnarinnar sem kemur í veg fyrir að við getum lokið þinginu. Það er alveg kristaltært. Þau virðast ekki geta komið sér saman, eins og hér hefur komið fram, um samgönguáætlun, um fjármálaáætlun og stór mál sem ríkisstjórnin vill koma í gegn. Þau hafa ekki náð að semja sín á milli um það hvaða mál þau vilja raunverulega koma í gegn. Þau hrossakaup eiga eftir að fara fram og það stendur allt fast í skrúfunni þar eins og annars staðar hjá ríkisstjórninni og það er stóra málið. Það er ekki á ábyrgð stjórnarandstöðunnar að við getum ekki haft eðlileg þinglok, þau þurfa fyrst að semja sín á milli áður en þau koma til okkar og semja. Það liggur algerlega fyrir, það er kristaltært og það er vandamál sem við sjáum meira að segja líka koma fram í fjölmiðlum þegar þingmenn stjórnarflokkanna tala sín á milli. Varðandi fjármálaáætlunina (Forseti hringir.) er alveg kristaltært að hún verður að koma fram sem allra fyrst og það þarf að gera breytingar á henni ef þessi (Forseti hringir.) útgjaldafreku frumvörp eiga að ná fram að ganga.