154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

skipulag þingstarfa.

[11:05]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að á þeim degi sem átti að vera næstsíðasti dagur þingsins þá séum við ekki einu sinni við byrjuð á því að semja um það hvernig þinglok verða heldur eru enn þá slagsmál á stjórnarheimilinu um það hvaða verkefni fá að fara í gegn þetta vorið. Við vitum hvernig þau slagsmál enduðu í fyrra, það gerðist ekki neitt. Hér á dagskrá í dag, nr. 22, er t.d. Afurðasjóður Grindavíkur. Fjárauki fyrir Grindavík og önnur mál fyrir Grindavík sjást ekki einu sinni á dagskránni. Þetta eru mál sem við öll getum verið sammála um, mál sem við öll verðum að samþykkja fyrir Grindvíkinga. En, nei, það er sett aftast á dagskrána. Hvernig væri nú að hafa alvörufundarstjórn hérna og hafa dagskrána þannig (Forseti hringir.) að við getum klárað þau mál sem liggur á fyrir Grindvíkinga og aðra í stað þess að reyna að troða málum fremst á dagskrá sem vitað er að munu taka langan tíma í umræðu? (Forseti hringir.) Ég held að það ætti aðeins að skoða það hvernig fundarstjórnin er hér og hvernig dagskráin er gerð.