138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir kvenfélögum landsins og móðir mín var lengi í einu slíku. Ég hef hins vegar aldrei líkt ESB við kvenfélag. Ég hef aftur á móti sagt að það séu tvö kaupfélög eftir í heiminum, Kaupfélag Skagafjarðar og Evrópusambandið, og að ég styðji bæði.

Ég vil hins vegar segja það að hagnaðurinn sem Íslendingar munu hafa af aðild gæti t.d. birst í hinu sama og við höfum séð hjá Möltu þar sem erlend fjárfesting hefur tvöfaldast frá því að Malta varð aðili að Evrópusambandinu. Hann mun birtast í því að við munum losna við kollsteypurnar, við munum losna við verðtrygginguna og munum hafa miklu lægri vexti en við búum við í dag. Það hafa verið lagðir fram útreikningar sem sýna að bara vextirnir skipta hundruðum milljarða á ári fyrir heimilin, fyrir fyrirtæki og fyrir ríkið.

Ég held því að þarna sé ekki líku saman að jafna. (Forseti hringir.) Við erum auðvitað að slægjast eftir því að komast inn í umhverfi sem er okkur verulega hagfelldara fyrir atvinnulífið og fjölskyldurnar.