138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók þátt í mörgum kosningafundum fyrir síðustu alþingiskosningar þar sem m.a. var spurt um afstöðuna í Evrópusambandsmálum. Það sem ég gerði alls staðar þar sem ég kom var að reifa hvað landsfundur VG hefði samþykkt í þessum efnum, þá þrjá punkta sem ég gat um áðan. Ég hef aldrei farið dult með að á kosningafundum sagðist ég telja að það kæmi fyllilega til greina að láta reyna á það í viðræðum hvað væri uppi á borðinu hvað varðar Evrópusambandsaðild. Það var engin skuldbinding í því fólgin um að tala fyrir aðild að Evrópusambandinu. Það kemur enda skýrt fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarflokka að hvor flokkur um sig áskilur sér allan rétt í því efni.

Hvað varðar samráð um svör við spurningalistanum, sem þingmaðurinn spurði líka um, þá vísa ég því á bug að ekkert samráð hafi verið haft um það. Spurningalistarnir voru margir hverjir yfirfarnir af utanríkismálanefnd. Utanríkismálanefnd ákvað hvaða kafla í spurningalistunum hún vildi fjalla sérstaklega um og skiptist á skoðunum um það við fulltrúa utanríkisráðuneytisins og fagráðuneyta. Það urðu ýmsar breytingar á svörunum, m.a. þessi umræða á vettvangi nefndarinnar.