138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir það sem hún sagði um eldgosið í Eyjafjallajökli og það sem því tengdist. Hún kom inn á Evrópusambandsumsóknina og nafngreindi m.a. þann sem hér stendur, og fjallaði um að þetta hefði verið erfitt mörgum flokkum.

Mig langaði aðeins að spyrja hv. þingmann, af því hún fór í gegnum sýn sína á þetta, hver væru hennar helstu rök fyrir því að ganga í Evrópusambandið nú og hvort hún gæti stiklað á þeim hér? Þau komu ekki fram í máli hennar heldur nefndi hún einungis að það væru ákveðin rök fyrir því að ganga þarna inn. Hver eru þau rök? Ég vil líka spyrja hvort það sem gengið hefur á í Evrópusambandinu núna, bæði hvað varðar gjaldmiðilinn og annað því um líkt, yfirlýsingar Angelu Merkel, það sem er að gerast í Grikklandi og víðar, hvort það hafi ekki haft nein áhrif á að móta afstöðu hennar til þessa ferlis?

Auk þess langar mig að spyrja hana, því hún talar mikið um lýðræðið sem er í því fólgið að þjóðin fái að segja sína skoðun á þessu, hvað finnst henni um að það þurfi að fara í ákveðna aðlögun á regluverki Íslands áður en að þjóðaratkvæðagreiðslunni kemur, bæði áður en samningakaflar eru opnaðir og áður en þeim er lokað? Telur hún að það sé eðlilegt, miðað við að málið er sett upp með þeim hætti að þjóðin eigi að fá samning og fái að kjósa um hann?