139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

virðisaukaskattur.

451. mál
[15:30]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir þakkirnar og líka fyrir að gefa mér tækifæri til að eiga aðeins meira við tölvuna sem ég var að hreyfa hér áðan í ræðustólnum. Ég er nú ekki mikill hómó tekníkus, en það þurfti auðvitað ekki nema styðja fingri á réttan hnapp til þess að upp kæmi Tímarit Máls og menningar — ég kann ekki að nefna hvort þetta er síðasta eða næstsíðasta hefti af því. Þar er m.a. grein eftir Þorstein Þorsteinsson um skáldskap Steins Steinarrs. Ég ætla að gera það hér að gamni mínu og til fróðleiks að lesa í fyrsta sinn í ræðustól Alþingis texta af lestölvu og hann er svona, með leyfi forseta:

Tíminn er eins og vatnið,

og vatnið er kalt og djúpt

eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,

sem er máluð af vatninu

og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið

renna veglaust til þurrðar

inn í vitund mín sjálfs.