139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það gætir ákveðins misskilnings hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni þegar hann hélt því fram áðan að við værum og ég m.a. að gera athugasemdir við hvaða þingmál Framsóknarflokkurinn flytti á þingi. Það hef ég aldrei gert. Ég hef hins vegar spurt hvers vegna þessi forgangsröðun sé, því að samkvæmt vef Alþingis eru þingmenn Framsóknarflokksins eða flokkurinn í heild með 21 þingsályktunartillögu í gangi á þinginu. Það er 21 þingsályktunartillaga samkvæmt vef þingsins og framsóknarþingmenn eru merktir á 32 lagafrumvörpum sem eru í einum eða öðrum farvegi, þetta eru 53 mál. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa væntanlega sest, eins og ég sagði áðan, yfir málalistann í gær, plokkað þetta út og fundið forgangsmálið sem er það sem við ræðum hér í dag. Það var þetta sem ég átti við. En ég vil spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson: Telur hann að í tillögu framsóknarmanna sé átt við þann þingmann sem hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi hvað oftast áðan, Álfheiði Ingadóttur?