140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta mál er hér til 3. umr. og hefur umræðan orðið meiri en oft er við þá umræðu. Má það annars vegar rekja til þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur gert ýmsar breytingartillögur milli 2. og 3. umr. sem auðvitað kalla á ákveðnar umræður og þar að auki hefur komið fram tillaga frá hv. þm. Merði Árnasyni sem einnig felur í sér talsvert meiri breytingu en virðist við fyrsta yfirlestur eins og hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson og Kristján Þór Júlíusson hafa rakið. Ætla ég ekki að bæta miklu við þá umræðu en tek undir að þrátt fyrir að markmiðin sem sett eru fram í breytingartillögu hv. þm. Marðar Árnasonar séu vissulega af hinu góða verður að gæta þess að lagasetningin taki mið af raunveruleikanum og að unnt sé að framkvæma hlutina með þeim hætti sem þarna er lagt upp með. Áhyggjur sveitarstjórnarmanna eru skiljanlegar ef hún nær fram að ganga þannig að þetta er atriði sem ég tel að þyrfti að skoða betur og ekki efni til að samþykkja breytingartillögu hv. þingmanns við þessa umræðu.

Varðandi breytingartillögur meiri hlutans sýnist mér að þær þjóni að töluverðu leyti þeim tilgangi að koma til móts við athugasemdir sem komið hafa frá fagaðilum á þessu sviði, ekki síst fornleifafræðingum sem brugðust nokkurt hart við fyrir einhverjum vikum þegar málið var afgreitt úr nefnd fyrir 2. umr. Ég á ekki sæti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd en geng út frá því að nefndin sé raunverulega að koma til móts við þær athugasemdir sem fram komu. Ég held að það sé til bóta þó að ég taki auðvitað undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt um að á sviðum eins og þessum verður seint komið til móts við öll þau sjónarmið og athugasemdir sem fram koma. Ég lít svo á að þarna sér komið til móts við athugasemdir í töluvert veigamiklum atriðum og fagna því.

Ég vildi drepa á örfá atriði, fyrst eitt af meginmarkmiðunum með þessu frumvarpi, það að sameina stofnanir sem starfa á þessu sviði, Fornleifavernd og húsafriðunarnefnd og setja á fót nýja stofnun, Minjastofnun Íslands. Ég held að það geti farið ágætlega á því að sameina þessar stofnanir og vona að það markmið sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu um að þessu fylgi hagræðing sem geri þeim sem starfa á þessu sviði betur kleift að sinna verkefnum sínum náist fram. Ég hef í sjálfu sér ekki ástæðu til að ætla annað. Auðvitað getur margs kyns rekstrarkostnaður samnýst í svona sameiningu og þó að það sé ekki alveg nákvæmlega sama starfssvið sem Fornleifanefnd og húsafriðunarnefnd hafa haft eru sviðin skyld þannig að ætla má að samlegðaráhrifin verði nokkur.

Ég sé í áætlunum sem fylgja frumvarpinu að gert er ráð fyrir tiltölulega litlum kostnaðarbreytingum vegna samþykktar frumvarpsins. Auðvitað kemur til tímabundinn kostnaður eins og jafnan þegar stofnanir eru sameinaðar, kostnaður sem tengist biðlaunum, breytingum á húsnæði og öðru slíku. Það fylgir en þær upphæðir eru ekki verulegar í þessu sambandi. Ætla má að skrifstofuhald og kostnaður verði lægri til lengri tíma litið og ég dreg ekki í efa að það geti staðist en auðvitað vekur líka athygli að áform ráðuneytisins eru að auka framlög þannig að niðurstaðan verður kannski kostnaðaraukning en peningarnir nýtast með öðrum hætti en til þessa. Ég vil ekki gera ágreining um þennan þátt enda tel ég að þarna sé varfærnislega farið í áætlunum. Þó að þessar stofnanir gegni mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu varðandi vernd og skráningu menningarminja er heildarkostnaðurinn sem fylgir þessu sviði ekki mikill þegar á allt er litið, raunar mun minni en ég hefði getað ímyndað mér að óreyndu; Ég hef því ekki áhyggjur af þeim þætti og vona að þær spár og áætlanir sem birtast í frumvarpinu um aukna skilvirkni, aukna hagræðingu og þar af leiðandi meiri möguleika þeirra sem starfa á þessu sviði til að sinna verkefnum sínum af kostgæfni standist.

Í umræðunum um fundarstjórn forseta áðan kom ég aðeins inn á atriði sem ég ætlaði að nefna þegar ég bað um orðið sem viðbrögð við ummælum frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem vakti athygli á ákvæðum í þessu frumvarpi sem eru í eðli sínu skattalagaákvæði um undanþágur frá sköttum og gjöldum. Ég ætla samhengisins vegna að drepa á það sem ég nefndi áðan, hér er ekki um ný ákvæði að ræða heldur ákvæði sem ég hygg að hafi verið í lögum um alllangt skeið. Það er ekki verið að fara inn á nýjar brautir hvað þetta varðar en auðvitað má velta því fyrir sér í þessu sambandi og reyndar á fjölmörgum öðrum sviðum hvaða forsendur eiga að liggja til grundvallar því að veittar séu undanþágur frá almennum reglum skattalaga. Meginreglan er auðvitað sú að tekjur, hvort sem um er að ræða styrki eða annað þess háttar, skuli telja til tekna og að undantekningar frá því verði að vera frekar fáar og frekar vel rökstuddar. Þó að ágæt rök kunni að vera fyrir þeirri undanþágu sem fylgir í þessari lagasetningu og þeim lögum sem nú gilda á þessu sviði má auðvitað yfirfæra það á fjölmörg önnur svið. Það er kannski málefni sem við komumst ekki til botns í í þessari umræðu og getum ekki útkljáð hér en vekur athygli á því að það kann að vera tilefni til þess fyrir hv. Alþingi að fara yfir það hvar undanþágur eru í lögum frá tekjuskatti og greiðslu annarra skatta og gjalda þannig að það sé þá mótuð samræmd stefna um það hvar slíkar undanþágur eiga að vera fyrir hendi og hvar ekki. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að amast sérstaklega við þessum ákvæðum í frumvarpinu en þetta gefur okkur tilefni til að skoða það. Ýmsir styrkir úr opinberum sjóðum geta verið og eru vonandi að jafnaði til þess fallnir að stuðla að góðum, jákvæðum og virðingarverðum markmiðum. Það er sérstakt að þeir eru stundum undanþegnir sköttum og gjöldum og stundum ekki. Það þyrfti að mínu mati, hæstv. forseti, að fara fram einhver samantekt á því hvernig ákvæði af þessu tagi eru orðuð í lögum og hvaða viðmið við viljum setja um það hvenær undanþágur eiga að vera heimilar og hvenær ekki.

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé jákvætt skref að þetta frumvarp nái fram að ganga og vona að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi náð að draga úr þeim ágreiningi sem varð um þetta mál á vinnslustigi þess með þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir. Ég mun því styðja þetta en vil þó halda til haga þeim ábendingum sem ég hef komið að í þessari stuttu ræðu minni og sérstaklega því sem hv. þm. Pétur Blöndal vakti máls á og varðar skattamálin þó að það sé auðvitað alls ekki bundið við það sem er að finna í þessu frumvarpi heldur er miklu stærra og víðtækara mál sem ekki verður leyst í þessari atrennu.