140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[12:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Við fjöllum um eitt af þessum EES-málum sem koma hingað inn. Þar sem við erum hluti af samningi um Evrópska efnahagssvæðið þurfum við að taka ýmislegt á okkur sem því fylgir. Hér er meðal annars verið að fjalla um tollskrár og breytingar á slíkum hlutum. Þetta tengist svona óbeint en tengist engu að síður. Við höfum rætt hér töluvert um matvæli, um hreinleika þeirra, og dýraheilbrigði og ýmislegt þegar við ræðum um Evrópusambandið. Hér er meðal annars rætt um tolla og breytingar á tollskrám og slíku varðandi það mál sem hér er til umræðu. Þetta er kannski ekki stórt mál í stóra samhenginu; og þó, maður veit aldrei.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort hv. þingmaður hafi einhverjar upplýsingar um á hvað breytingar þetta kallar þegar horft er til tolla er lúta að innflutningi frá Evrópusambandinu eða breytingar sem að því snúa. Við þurfum að vera með á hreinu hvaða áhrif allar þær breytingar sem verið er að gera hafa. Við sjáum líka að verið er að eyða miklum fjármunum í að samræma tollskrár við tollskrár Evrópusambandsins og á það víst að liggja fyrir þegar og ef af inngöngu verður. (Gripið fram í.)

Ég spyr því hv. þingmann hvort hann (Forseti hringir.) þekki til þessara breytinga allra er varða tollamál og lýtur að viðræðum við Evrópusambandið.