140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af fyrirspurn hv. þingmanns velti ég því til dæmis fyrir mér hvort þetta ákvæði frumvarpsins, ef það verður að lögum, hefði til dæmis dugað til að koma auga á það ef menn ætluðu að smygla mörðum til landsins eins og kom fram núna í fréttum í gær eða fyrradag. Mér er ekki alveg ljóst hvort svo væri en það væru náttúrlega meiri líkur á því að Matvælastofnun gæti fylgst með því ef óbreytt ákvæði sem samþykkt var hér eftir 2. umr. hefði náð fram að ganga. En nú er alla vega verið að takmarka þann aðgang. Ég treysti mér að minnsta kosti ekki til þess að svara því svona án þess að athuga þetta betur.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að við þurfum að hafa þetta eftirlit sem allra best. Þess vegna var það ætlun okkar við 2. umr. að opna þessar heimildir meira fyrir Matvælastofnun. En vitaskuld verðum við að gæta meðalhófs í þessum efnum. Við verðum að tryggja að við brjótum ekki persónuverndarákvæði. Ég held að enginn okkar vilji það. Enda var það niðurstaða okkar, eftir að hafa farið yfir málið á milli 2. og 3. umr. í hv. atvinnuveganefnd, að það væri skynsamlegt hjá okkur að stíga skrefið til baka til þess að tryggja að við værum ekki að ganga svo langt þó að við vildum opna þessa heimild fyrir Matvælastofnun. Sannarlega er þetta skref í áttina, en það er ekki nema með breyttu fyrirkomulagi hjá tollinum sem við getum síðan tryggt þann aðgang sem ætlunin var í upphafi.