140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta fyrirbæri er galli í hlutabréfaforminu og stofnfjáreigendaforminu í sjálfu sér og gildir um allan heim. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Þetta er misnotað um allan heim. Okkur er vandi á höndum með að breyta þessu með þessa hringferla en þeir geta gert það að verkum að sparisjóður eða hlutafélag, ekki endilega banki, sýni allt of mikið eigið fé, eigið fé sem raunverulega er ekki til. Það getur platað bæði aðra hluthafa, það getur platað birgja, lánveitendur og matsfyrirtækin. Það plataði í rauninni matsfyrirtækin þegar bankarnir á Íslandi fengu AAA og sérstaklega platar það lánveitendur sem og aðra stofnfjáreigendur sem halda að það sé eitthvert eigið fé í fyrirtækinu en svo er ekki. Svo byrjar þetta að hrynja og þá hrynur það mjög hratt og mjög ítarlega þannig að það bara hverfur. Þetta er það sem gerðist hérna í hruninu. Ég tel mjög brýnt að þessir hringferlar verði stöðvaðir og ég skora á hv. þingmenn í nefndinni að leggja til að frumvarp mitt verði sent til umsagnar og skoðað hvort hægt sé að fara þá leið að gera það refsivert að búa til svona hringferla.