145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[15:58]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er svo sannarlega þörf. Á síðasta kjörtímabili var ekki bara búið að skera fjárveitingar til framhaldsskólanna inn að beini heldur var komið inn í merg og ekki af neinu að taka. Núverandi hæstv. menntamálaráðherra er að auka við fjármagn inn í framhaldsskólana og við skulum líka vera meðvituð um að Róm var ekki byggð á einum degi. Þetta er áratugavandi sem við erum að glíma við en viljann vantar svo sannarlega ekki hjá hæstv. menntamálaráðherra til að vinna á honum. Það er mjög ánægjulegt að heyra að launastikan sem var í 22% 2014 verði orðin leiðrétt árið 2018.

Það er talað um að verið sé að skerða sveigjanleika í framhaldsskólum. Það er ekki rétt. Þegar farið verður úr fjögurra ára námi niður í þriggja ára nám verður sami sveigjanleiki til staðar. Það eru alltaf einhverjir nemendur sem munu þurfa lengri tíma og það eru alltaf einhverjir sem þurfa skemmri tíma og sá sveigjanleiki verður til staðar áfram.

Mér finnst líka afskaplega ánægjulegt að heyra að það er að skapast vilji í samfélaginu til að bæta framhaldsskólann, setja meira fjármagn þar inn. Framhaldsskólinn hefur ekki haft sama skilning og sömu sympatíu, vil ég segja, og heilbrigðisstofnanir sem sannarlega hafa þurft á því að halda, en það er mjög ánægjulegt að finna að það er að verða vakning fyrir því að við setjum meira fjármagn inn í framhaldsskólana.