145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[17:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma örstutt upp og nýta tækifærið til að þakka hv. velferðarnefnd og hv. þingmönnum í nefndinni fyrir mikla vinnu. Til gamans fór ég inn á feril málsins í nefndinni og renndi yfir fundina sem hafa verið haldnir vegna málsins. Það er gaman að segja frá því að 28 fundir voru haldnir í hv. velferðarnefnd til að ná að afgreiða málið út úr henni. Það segir talsvert mikið um vinnu nefndarinnar og samstöðu að hv. nefnd skilaði að mig minnir 34 breytingartillögum inn í 2. umr. og mér sýnist þær breytingartillögur sem komu núna við 3. umr. vera 15 talsins, ef ég hef yfirsýn því að von er á breytingartillögu um miðjan dag í dag. En þessar 15 breytingartillögur eru í nokkrum liðum.

Allir hv. þingmenn velferðarnefndar hafa unnið saman að þessu máli og eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, gerði grein fyrir hafa fleiri aðilar komið að því. Má þar nefna helst velferðarráðuneytið, ASÍ, Reykjavíkurborg og sambandið. Það ber að þakka þeim verulega fyrir þær ábendingar og tillögur sem þau komu með vegna þessara þátta og þá hjálp sem þau veittu okkur á lokametrunum í afar flóknu verki sem nefndin hafði til meðferðar milli 2. og 3. umr.

Það er ánægjulegt að nú þegar hefur velferðarnefnd afgreitt þrjú af fjórum húsnæðisfrumvörpum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn og vona að það sé örstutt að bíða þess að fjórða frumvarpið verði afgreitt frá velferðarnefnd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Heyr, heyr, já. En frumvörpin sem búið er að afgreiða úr nefndinni eru frumvarp um almennar íbúðir, frumvarp um breytingar á húsaleigulögum og frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Húsnæðisbæturnar eru enn í nefndinni en ég tel að þess sé stutt að bíða þar til það mál verður afgreitt úr henni.

Frumvarpið sem við ræðum er um gríðarlega uppbyggingu á 2.300 leiguíbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Það er gríðarlega mikilvægt að mikil samstaða var meðal nefndarmanna um þetta, því að um er að ræða eina þá stærstu uppbyggingu sem hefur orðið á húsnæðismarkaði frá því að Breiðholtið var byggt. Kerfinu sem við erum búa til lagaumgjörð í kringum er ætlað að byggjast upp víða um landið. Það er gaman að segja frá því í 3. umr. um málið, þegar lögin eru rétt handan við hornið, að ég vona, að sveitarfélög víða um landið og á höfuðborgarsvæðinu hafa haft samband og lýst yfir áhuga á því að taka þátt í þessu verkefni. Þau ánægjulegu verk voru unnin í hv. velferðarnefnd að horft er bæði til höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar. Það er horft til landsins alls og gerðar ýmsar breytingar sem gert hefur verið grein fyrir í fyrri ræðum hv. þingmanna. Við breytum lögunum til að auka möguleika alls konar sveitarfélaga á að taka þátt í þessu mikla verkefni.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Áður en ég lýk máli mínu ætla ég að ítreka þakkir mínar til hv. þingmanna í velferðarnefnd fyrir mikla vinnu við þetta mál sem og önnur og einnig vil ég þakka nefndarritara nefndarinnar, Gunnlaugi Helgasyni sem hefur vakað yfir þessum málum dag og nótt, það er óhætt að segja. Hann fær okkar bestu þakkir fyrir alla þá vinnu þó að við nefndarmenn, hv. þingmenn, berum fulla ábyrgð á öllu því sem fram kemur í þessum þingskjölum.

Það er með mikilli gleði og ánægju sem ég lít til þessa máls sem er liður í að auka búsetuöryggi einstaklinga og fjölskyldna í þessu landi, að fólk hafi raunverulegt val um búsetuform. Það er það sem skiptir máli, búsetuöryggið, að fólk geti valið hvort það vill vera í eigin húsnæði, í húsnæðissamvinnufélagi eða hér eftir, að ég vona, á öruggari leigumarkaði en við þekkjum í dag.

Að lokum vil ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur fyrir stóran þátt hennar í málinu og óska henni til hamingju.