150. löggjafarþing — 123. fundur,  23. júní 2020.

sorgarorlof foreldra.

653. mál
[11:45]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek bara undir með þeim þingmönnum sem hafa talað hér og blandað sér í umræðuna um mikilvægi málsins. Ég hef þá trú að kostnaður sem af þessu hlýst sé í raun ekki kostnaður heldur séum við að koma í veg fyrir kostnað sem samfélagið mun þurfa að taka á sig síðar ef þetta er ekki gert. Ég held að það sé líka hluti af breytingum sem hafa orðið á síðustu áratugum. Hér áður fyrr var bara sagt: Heyrðu, þú bara harkar af þér, ekkert kjaftæði. Við erum hins vegar að sjá félagslegar afleiðingar og líkamlegar sjúkdómsafleiðingar af því þegar samfélagið grípur ekki inn í og aðstoðar fólk við að komast í gegnum áföll og það er það sem þetta snýst um, að gefa fólki svigrúm til að geta tekist á við þau erfiðu áföll að missa barn eða fyrir foreldra að missa maka frá börnum. Það er ekki hægt að setja kostnaðarmiða á það öðruvísi en að skoða þá ávinninginn sem af því getur hlotist til lengri tíma. Ég vil bara fagna fyrirspurninni og því að hv. þingmaður skuli taka þetta upp hér og fagna þeim góðu umræðum sem hafa verið um málið.

Sérstaklega var spurt að því hvenær ráðherra sæi fyrir sér að útlínur þessa gætu komið inn í þingið. Við höfðum gert ráð fyrir því, þegar við hófum vinnuna í febrúar, að geta skipað þann hóp í mars, ætluðum síðan að láta hann starfa fram á sumar og geta komið með frumvarp á haustþingi. Hins vegar þegar Covid-19 kom upp, þá ýttum við öllum málum til hliðar í ráðuneytinu og hugsuðum bara um Covid-tengd mál og þetta var því miður eitt þeirra mála sem við urðum að fresta en höfum núna síðan um miðjan maí verið að koma því aftur af stað. Ég sé fyrir mér að geta skipað þann hóp sem gæti þá kannski skilað af sér tillögum þegar líður inn í næsta vetur og mögulega gætum við komið með frumvarp á vorþingi 2021 ef allt gengur upp.

En ég þakka fyrir umræðuna og þakka fyrir fyrirspurnina.