154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það blasir við okkur ansi áhugaverð staða nú á lokametrum þessa þings. Það er eiginlega ekki hægt að segja annað. Nýjasta fréttin er sú að Miðflokkurinn hefur boðað mögulega vantrauststillögu á hæstv. matvælaráðherra. Mig langar að segja það hér að ég styð þá tillögu eindregið, komi hún fram, bæði með vísan í stjórnsýslu ráðherrans sem ekki hefur verið heppileg, rétt eins og hjá forvera hæstv. matvælaráðherra fyrir ári, en ekki síður vegna þess að það er orðið mjög brýnt að koma þessari ríkisstjórn frá völdum.

Ég gæti haldið hér langa ræðu um tilefnin til þess að greiða atkvæði með vantrausti á hvern einasta ráðherra. Aðalatriðið er að ríkisstjórnin er ekki að ná utan um það verkefni að vinna fyrir fólkið í landinu. Það eru t.d. tugir mála sem bíða þess að vera afgreidd. Þingheimur hefur ekki hugmynd um hver þeirra verða kláruð. Stjórnarflokkarnir hafa haft fjórar vikur frá því að þingið fór í hlé vegna forsetakosninga til að ná saman lendingu um þau mál sem á að klára. Niðurstaðan af því blasir ekki enn við. Við erum enn í myrkrinu vegna þess að flokkarnir eru ósamstiga um nánast hvert einasta mál. Og við vitum auðvitað hvernig keðjuverkunin í þessu getur verið. Við sáum það mjög vel þegar við lukum þingstörfum fyrir ári.

Mig langar síðan að vekja athygli á orðum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna bréfs sem hæstv. fjármálaráðherra sendi henni vegna netverslunar með áfengi. Það er algerlega afdráttarlaust af hálfu lögreglunnar að svona afskipti af lögreglu eru ekki heppileg í réttarríki. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra telji að hann hafi ekki verið að hafa afskipti af störfum lögreglu. (Forseti hringir.) Lögreglan er hins vegar þeirrar skoðunar að svo hafi verið.

Þetta er staðan sem blasir við okkur og ég vona svo sannarlega að við förum að komast upp úr þessum hjólförum.