154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við þekkjum flest kennara sem breyttu lífi okkar til góðs. Þessir kennarar eiga skilið að fá að gera það sem þeir gera best, sem er einfaldlega að kenna og kenna við betri aðstæður en þeir gera í dag. Þeir eiga skilið að stjórnvöld meti þá að verðleikum, að brugðist sé við grafalvarlegum niðurstöðum í skólunum sem allar eru á sömu lund. Brottfall nýrra kennara úr starfi er töluvert, sem speglar auðvitað hversu erfitt starfsumhverfið er í dag.

Skólinn á að vera okkar besta jöfnunartæki í samfélaginu en er það ekki í dag. Í heimsóknum Viðreisnar í grunn- og framhaldsskóla nýverið fundum við vel þann mikla metnað sem einkennir kennara í starfi sínu og við heyrðum ákall þeirra um að settur verði aukinn kraftur í gerð námsefnis, að bekkir þurfi að minnka. Við heyrðum líka tal um að það hafi áhrif að samræmdar mælingar skorti fyrir skólana því að mælingar eru stuðningstæki fyrir börnin.

40% 15 ára barna á Íslandi geta ekki lesið sér til gagns í lok skólagöngu. Ísland skrapar botninn í alþjóðlegum samanburði og botninum er því miður líklega ekki náð. Þetta segir höfundur nýrrar skýrslu og nýjasta skýrslan, sem fjallar um stöðu drengja, ber með sér að stjórnvöld hafa brugðist börnunum. Nýjasta skýrslan er á sömu lund og allar þær fyrri og á þessari stöðu bera stjórnvöld höfuðábyrgð. Börn sem búa ekki yfir nægilegum lesskilningi eru að missa af tækifærum, glata tækifærum til frambúðar. Það er stjórnvalda að tryggja að skólarnir geti gegnt því hlutverki sem þeim er ætlað að gera, að auka tækifæri barna. Ég sakna þess að við séum ekki að ræða þessa stöðu meira í þessum sal. Stjórnvöld verða að ræða þessa alvarlegu stöðu því að sú framtíðarmúsík sem hér er að teiknast upp er gríðarlega mikið áhyggjuefni.