154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það var fróðlegt að sitja hér í þingsal undir eldhúsdagsumræðum hv. kollega minna, bara nokkuð skemmtilegt. Auðvitað ekki eins skemmtilegt og þétt og góð umræða hér í þingsal um frjálst flæði ópersónugreinanlegra gagna. Okkur er bara svo umhugað um að EES-samningurinn virki. Hv. þingmenn fóru um víðan völl, ræddu sín helstu baráttumál og strengdu kosningaloforð. Vörpuðu jafnvel upp hrollvekjandi framtíðarsýn, alveg virkilega. Hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins nýttu sinn tíma í að fara yfir það sem vel hefur verið gert á þeirra málefnasviðum á yfirstandandi kjörtímabili. Útlendingamál og orkumál eru auðvitað risavaxin mál um þessar mundir. Fleiri stjórnmálamenn hafa reyndar nýlega áttað sig á því og láta litlum saumaklúbbum eftir að ræða nýja stjórnarskrá og aukin ítök Evrópusambandsins á Íslandi. Velkomin um borð.

Sjálfstæðisflokkurinn er raunveruleg breiðfylking. Þar finnum við allt litrófið og þar rúmast alls konar skoðanir á alls konar málum. Og það hljómar trúlegra en þegar sex manna hópur, svo ég nefni einhverja tölu, reynir að halda þessu fram. En Sjálfstæðisflokkurinn er algjörlega einhuga þegar kemur að stærstu áskorununum; orkumálunum, efnahagsmálunum, útlendingamálunum. Einhuga um lykilinn að enn sterkara heilbrigðiskerfi og almannatryggingakerfi. Loforð okkar til almennings byggja á langri og góðri ferilskrá. Við höfum nefnilega átt ríkan þátt í því að byggja hér upp eitt ríkasta, öruggasta og jafnasta samfélag í heimi. Á eldhúsdegi fóru hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins yfir nýleg dæmi um góðar og mikilvægar breytingar fyrir íslenskt samfélag. Um útlendingalöggjöf sem við erum loksins að breyta til samræmis við nágrannalöndin, um áratugalöngu kyrrstöðuna sem hefur verið rofin í orkumálum, sókn í orkumálum, jarðhitaleit og einföldun leyfisveitinga.

Höldum áfram á réttri braut, gerum frábært samfélag enn betra. Við Sjálfstæðismenn erum hér til þess.