154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Þann 17. júní 1944 var íslenska lýðveldið stofnað á Lögbergi á Þingvöllum og fagnar það því nú 80 ára afmæli. Sérstök hátíðardagskrá í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins hefur verið sett upp með fjölda viðburða. Hvar er betra að njóta þessara merku tímamóta heldur en í umhverfi Þingvalla? Því hvet ég þingheim allan sem og þjóðina til að heimsækja Þingvelli og njóta þess umhverfis sem þar er og minnast þessara merku tímamóta sem eru einn stærsti viðburðir í Íslandssögunni. 15. og 16. júní hefur verið sett á fót menningarhátíð á Þingvöllum með fjölbreyttri dagskrá og er hægt að sjá dagskrána betur inni á lýðveldi.is og thingvellir.is og hvet ég alla til að kynna sér það. Þar verður fjölbreytt dagskrá, t.d. fyrir börn; þar verður menningarkort afhjúpað og þar verður verkefnið Ef ég væri forseti og Fornleifaskóli barnanna, víkingar verða staðnum og glíma, farið verður í margar gönguferðir, m.a. með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, opnuð verður ljósmyndasýning á morgun klukkan fjögur á Hakinu um hátíðahöldin þann 17. júní 1944, það verður svokölluð kórahátíð á Þingvöllum, fjallkonan mætir og svo verður á sunnudagskvöldið söngvavaka á Valhallarreitnum þar sem fjöldi merkra tónlistarmanna mun koma fram. Ég hlakka til að sjá ykkur á Þingvöllum um helgina.