154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

Störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Á mánudaginn 17. júní fögnum við 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands. Af því tilefni munu kórar hvaðanæva af landinu syngja valin lög undir yfirskriftinni Sungið með landinu. Kórsöngur er þjóðaríþrótt Íslendinga og talið er að 38% Íslendinga hafi einhvern tímann verið í kór. Þessa kóra skipar fólk af öllum stærðum og gerðum. Það eru barnakórar, kórar eldri borgara, kirkjukórar, hinsegin kórar, kvenna- og karlakórar og sá nýjasti í flórunni; Alþingiskórinn. Til að syngja í kór er tóneyra ákjósanlegt en ekki endilega nauðsyn. Verkefni kóra er að stilla saman allar raddir, ekki bara þær þjálfuðu sem hafa verið í kórnum árum saman heldur líka þær ungu og nýju sem ekki ná sama samhljómi nema með hjálp þeirra eldri og reyndari, þær sem kunna kannski ekki öll lögin í fyrstu atrennu en eru svo mikilvæg og dýrmæt viðbót og styrking við þær raddir sem fyrir eru. Við erum öll kór íslenska lýðveldisins. Í 80 ár höfum við stillt okkur saman og sungið í samhljómi. Stundum er kórinn falskur, stundum ekki í takt við sjálfan sig eða ytri taktvísa. Þegar á bjátar er þetta þó besti kórinn. Þá ná allar þessar ólíku raddir að stilla sig saman og ná fegursta hljómi samkenndar og samhjálpar. Þessum hljómi þurfum við að ná oftar og halda lengur, bjóða nýju raddirnar velkomnar því að það er besta leiðin til að efla og auka þennan samhljóm. Þannig verðum við meðal þjóða þjóð sem lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf, svo vitnað sé í eitt ástsælasta kóralag lýðveldisins, með leyfi forseta. — Gleðilega þjóðhátíð og til hamingju með árin 80. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)