154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:14]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér sitjum við enn og munum sitja eitthvað fram í næstu viku þar sem ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um það hvernig við ætlum að klára þetta þing. Eitt geta þeir hins vegar komið sér saman um og það er að sparka í fólk á flótta, þar á meðal börn. Eru ákvæði í þessu frumvarpi, fyrst og fremst ákvæði sem lúta að takmörkunum á möguleikum til fjölskyldusameiningar, ekki bara óverjandi heldur er þeim beinlínis beint gegn Palestínumönnum sem búa við aðstæður akkúrat núna sem gera þetta enn þá svívirðilegra en það er. Við erum á móti þessu máli. Það er ekkert gott í þessu máli. Þær breytingar sem er verið að gera auka ekki skilvirkni, þær auka kostnað, þær auka álag á Útlendingastofnun með því að stytta gildistíma dvalarleyfa. Þetta er algerlega tilgangslaust og er ríkisstjórnin svolítið bara að gera eitthvað út í loftið. Þetta samræmir ekki löggjöf okkar löggjöf í öðrum ríkjum, eitt mögulega að einhverju leyti en ekki önnur sem eru að gera betur og gera hluti sem ganga vel. — Ég segi nei.