154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í útlendingalögunum, nánar tiltekið 99. gr. þeirra, er heimild til þess að vísa brott útlendingum með dvalarleyfi ef þeir hafa gerst brotlegir við íslensk lög með alvarlegum hætti. En þessi grein dugar víst ekki til að vísa brott hælisleitendum sem hafa fengið hér stöðu flóttamanns vegna þess að í flestum tilvikum girðir 1. mgr. 42. gr. fyrir brottvísun þeirra. Því leggjum við til hér með breytingartillögu að við 42. gr. bætist ný málsgrein sem taki fram að bann við brottvísun skv. 1. mgr. þeirrar lagagreinar gildi ekki um þá sem hafa framið alvarleg brot á landinu, hvort heldur sem það eru hælisleitendur, flóttamenn eða ekki. Þetta mun sem sagt ganga yfir alla. Hér erum við sem sagt að koma til móts við þá hugsun sem hæstv. dómsmálaráðherra viðraði hér í eldhúsdagsumræðum í fyrrakvöld og ég get ekki betur heyrt en að það sé bara mikill stuðningur við það svona almennt, a.m.k. innan raða Sjálfstæðisflokksins.